Fimmta þáttaröð The Crown lenti á Netflix í gær og hefur fengið misgóða dóma í stærstu fjölmiðlum heims. Gagnrýnandi BBC segir seríuna letilega skrifaða og Guardian gefur henni tvær stjörnur af fimm. Gagnrýnandi New York Times segir höfunda þáttanna búna að glata fyrri hæfni og gagnrýnandi Variety segir þessa seríu þá slöppustu til þessa.
Rétt er að vara þau sem ekki hafa horft á alla tíu þættina við á þessum tímapunkti, þar sem fjallað verður um efni þáttanna hér.
Viðbúið var að dramað næði hápunkti í fimmtu seríu, sem fjallar um 10. áratug síðustu aldar hjá konungsfjölskyldunni. Áratugurinn var einn sá versti hjá fjölskyldunni og nær dramatíkin hámarki með skilnaði Karls Bretaprins og Díönu prinsessu af Wales, og svo síðar andláti hennar.
„Þrátt fyrir að ná hápunkti dramans, þá skemma letileg skrif fyrir henni,“ skrifar Hugh Montgomery gagnrýnandi BBC. Peter Morgan er höfundur þáttanna og hefur í gegnum tíðina fengið holskeflu ókvæðisorða yfir sig fyrir skrifin.
Montgomery bendir á í gagnrýni sinni að oft sem áður sé ekki farið með sagnfræðilegar staðreyndir sem heilagan sannleik í þáttunum og tekur sem dæmi byrjun þáttanna. Í fyrsta þætti er tónninn sleginn, og máluð upp sú mynd að konungsfjölskyldan sé í krísu og hafi aldrei verið óvinsælli. Montgomery bendir á að hún hafi alls ekki verið það í byrjun áratugarins og vísar í könnun sem gerð var árið 1990 þar sem níu af hverjum tíu sögðust jákvæðir í garð fjölskyldunnar.
Í fyrstu fjórum þáttaröðunum hefur öll athyglin verið á Elísabetu II. Bretadrottningu og hennar störf. Nú hefur athyglin hins vegar verið færð yfir á son hennar Karl, þá Bretaprins, núna Bretakonung.
Því fylgir ákveðin breyting að mati Montgomerys sem feli í sér að þættirnir líkist nú meira sápuóperum en þáttum með sagnfræðilegu ívafi.
Daniel D'Addario, gagnrýnandi bandaríska miðilsins Variety, fer ekki fögrum orðum um þáttaröðina og segir engan skýran áherslupunkt í henni. Hún sé úti um allt og allt of miklu púðri eytt í Díönu prinsessu og hennar vandamál.
„Skilnaður Karls og Díönu hefur augljóslega mikið aðdráttarafl fyrir áhorfendur og því hafa höfundar seríunnar þurft að hægja á atburðarásinni og staldra við. (Crown glímir við sama vandamál og drottningin gerði; Díana, með sín glorsoltnu augu og þörf fyrir ást og hrós, hrifsar til sín allt andrúmsloftið.) Jafnvel eftir að hafa fengið eftirminnilegan skandal að gjöf sem þennan, sem snýst um tvær heillandi og gallaðar manneskjur, hefur Crown ekkert nýtt að segja,“ skrifar D'Addario.
Jack Seale, gagnrýnandi breska blaðsins Guardian, er kominn með upp í kok af Crown og segir að nú sé komið gott. Ekki þurfi fleiri seríur þótt þær fyrstu hafi verið spennandi. Hann gaf fimmtu seríunni tvær stjörnur.
Seale segir þættina í fimmtu seríu leiðinlega. Morgan hafi fyrir Crown verið þekktur fyrir að sjá nýja vinkla á hlutunum en nú hafi honum sannarlega brugðist bogalistin.
Hann gagnrýnir einnig að í tíu þátta seríu hafi höfundar fundið sig knúna til að framleiða þætti til að fylla í götin og á þar við þriðja og sjötta þátt. Þriðji þáttur fjallar um Mohamed al-Fayed, egypskan viðskiptamann, sem er meðal annars eigandi Ritz-hótelsins í París og átti um tíma Harrods og fótboltaliðið Fulham. Sá sjötti er um Boris Jeltsín og samskipti drottningar við Rússa. „Það hefði mátt henda þessum þætti í ruslið án þess að það hefði nokkur áhrif á framvindu þáttanna,“ skrifar Seale.
Glataðasta hugmyndin að mati hans er svo að sýna skilnaði „venjulegra hjóna“ og bera saman við skilnað Díönu og Karls. „Skilaboðin eru væntanlega að sýna að alls konar hjónabönd geta endað vegna ósættis,“ skrifar Seale og segir það vandræðalegasta við þættina að skilnaðir venjulegu hjónanna hefðu verið áhugaverðari.
Gagnrýnandi New York Times, Mike Hale, segir Crown ekki lengur jafn góða og spennandi og þeir voru. Morgan hafi náð góðum árangri í að teikna upp drottninguna, Filippus hertoga og Margréti prinsessu. Þegar athyglin færist yfir á Karl og Díönu gangi honum ekki jafn vel og líði þættirnir fyrir það.
„Þótt Morgan reyni að segja okkur að þetta sé ástarsaga, þá fær maður ekki þá tilfinningu. Sagan sem væri eðlilegast að segja um Karl og Díönu þyrfti að vera villtari, nærgöngulli og harkalegri en Crown hefur efni á að vera,“ skrifar Hale.
Hann segir athyglisvert að því nær sem þættirnir færast í tíma, því meiri skáldskapur blandist við söguþráðinn.