„Taktu mig um jólin“

Sönghópurinn Jólabjöllurnar er á köflum ókristilegur en þó eru dömurnar …
Sönghópurinn Jólabjöllurnar er á köflum ókristilegur en þó eru dömurnar allar af vilja gerðar og syngja lög á borð við „Hátíðarsköp“ og „Þvagleki um jólin“. Ljósmynd/Aðsend

„Sko, við erum ekki beint kór, við erum svona sönghópur,“ segir Tinna Kristinsdóttir, markaðsfræðingur og talskona dónalega kvennakórsins Jólabjallanna sem virðast vera á hvers manns vörum þessi jólin þar sem þær troða upp í vinnustaðateitum og á jólaborðum félagasamtaka með lagatitlum á borð við það sem sést hér í fyrirsögn en eins hafa lögin Hátíðarsköp, Þvagleki um jólin, Halli hamstur, Jólaswingið og Elsku jóli,  gert víðreist og jafnvel notið vinsælda.

Hvernig stendur á þessu er markaðsfræðingurinn spurður.

„Þetta eru tíundu jólin okkar saman, við erum að syngja fyrir Reykjavíkurborg og ýmsa fleiri og getum alveg verið penar sko,“ segir Tinna og skellihlær. „Fljótlega eftir að við byrjuðum fórum við að syngja á jólahlaðborðum og eitthvað svona og byrjuðum að koma með eitt og eitt svona bull-lag og það fékk rosalega góðar undirtektir, það er svo gaman að koma fólki til að hlæja og svona,“ segir Tinna sposk.

Hverjar eru þessar við?

„Við erum bara vinkonur, þegar við byrjuðum voru einhverjar okkar saman í kór, við erum svona 32 til 42 ára gamlar, eða þú veist -ish eins og það heitir, og við erum flestar úr Reykjavík, eða reyndar ein úr Keflavík og ein frá Selfossi og ég er reyndar uppalin í Borgarnesi en við búum flestar á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Tinna og hlær dillandi og reyndar dálítið smitandi hlátri sínum.

En hvernig detta Jólabjöllunum þessir kynferðislegu og ódönnuðu titlar í hug?

„Þetta er nú ekkert svo ódannað, okkur finnst bara gaman að hafa titlana tvíræða. Við erum ekkert grófar eða stuðandi, „Taktu mig um jólin“ er til dæmis með framhaldið arma þína í svo það er nú kannski ekkert rosalega dónalegt, við vorum til dæmis að setja það á Spotify núna og svo höfum við verið að semja og útsetja lög byggð á því sem er í fréttum, eins og „Skákheimurinn titrar“, þú getur rétt ímyndað þér um hvað það fjallar,“ segir Tinna og hlær dátt á meðan blaðamaður reynir að ímynda sér söguþráðinn er þar liggur að baki.

„Við höfum svo sem ekki fengið neinar kvartanir yfir okkur og þrjár okkar eru meira að segja á lausu,“ segir hún hispurslaust, „við erum líka að syngja á hefðbundnum jóla- og fjölskylduskemmtunum, það er ekki eins og við vöðum í einhverjum dónaskap,“ segir Tinna skellihlæjandi og nýbúin að svæfa afkvæmi sitt á meðan blaðamann setur dreyrrauðan.

En hvað vinna Jólabjöllurnar við svona frá níu til fimm?

„Það er nú aldeilis fjölbreytt maður, ein er leikskólakennari, ein er verkfræðingur, ein er ferðamálafræðingur, ein verkefnastjóri og ég er viðskiptastjóri í heildsölu, við komum víða að, við höldum alveg að við séum normal, það er fronturinn okkar út á við,“ segir Tinna og hlær þriðja sinni eins og marbendillinn í þjóðsögunni.

„Það er brjálað að gera hjá okkur næstu daga, fyrsta desember erum við til dæmis með tónleika sem verða aðallega dónaskapur, í fyrra var troðið út úr dyrum hjá okkur og nú verðum við á Gauknum, þeir tónleikar verða ókeypis og þá ætlum við bara að vera með dónalög, við erum búnar að semja fullt af þeim í viðbót,“ segir Tinna Kristinsdóttir, talskona sönghópsins Jólabjallanna sem sannarlega kalla ekki allt ömmu sína og syngja lög á borð við „Taktu mig um jólin“, „Hátíðarsköp“ og „Þvagleki um jólin“ hispurslaust. Gleðileg jól.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu þér ekki bregða þótt aðrir kunni ekki að meta frumleika þinn og nýjungagirni. Leitaðu þér ráðgjafar í fjármálum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Tove Alsterdal
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu þér ekki bregða þótt aðrir kunni ekki að meta frumleika þinn og nýjungagirni. Leitaðu þér ráðgjafar í fjármálum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Tove Alsterdal
5
Torill Thorup