Á dögunum var lagalegri tilraun söngdívunnar Mariah Carey til að eignast titilinn „Queen of Christmas“ eða „drottning jólanna“ og nota sem vörumerki hafnað í Bandaríkjunum.
Carey á eitt vinsælasta jólalag allra tíma, lagið All I Want for Christmas is You. Lagið var samið og tekið upp af Carey og Walter Afanassieff. Það kom út 1. nóvember 1994 og hefur notið gríðarlegra vinsælda síðan.
Fram kemur á vef Page Six að Carey hafi einnig verið neitað um vörumerkin „Princess of Christmas“ eða „prinsessa jólanna“, og skammstöfunina „QOC“. Þessi ákvörðun gerir öðru tónlistarfólki heimilt að nota titilinn, en nokkrir tónlistarmenn töluðu gegn því að Carey fengi titilinn. Þar á meðal er söngkonan Elizabeth Chan, sem hefur notað hann óspart síðustu ár.
„Jólin eru tími til að gefa, ekki taka, og það er rangt af einstaklingi að reyna að eignast og einoka titil eins og drottning jólanna, það er svívirðileg efnishyggja. Sem sjálfstæður listamaður og eigandi lítils fyrirtækis er ævistarf mitt að leiða fólk saman yfir hátíðarnar, en þannig varð ég kölluð drottning jólanna,“ sagði Chan í yfirlýsingu um málið.
„Ég ber þann titil sem heiðursmerki og með fullri vitneskju um að titillinn verði – og ætti að vera – veittur öðrum í framtíðinni,“ bætti hún við. Chan hefur gefið út 12 jólaplötur á tónlistarferli sínum, en fyrr í vikunni gaf hún út nýjasta jólasmellinn, Merry Merry.