Brasilíska ofurfyrirsætan Gisele Bündchen á ekki í ástarsambandi við brasilíska jiu-jitsu-kennarann Joaquim Valente. Valente var staddur með Bündchen á Kosta Ríka á dögunum og héldu margir að hin fráskilda fyrirsæta væri komin með nýjan mann.
Heimildarmenn Daily Mail sem þekkja til segja að Bündchen og Valente séu ekkert meira en vinir. Þau hafa þekkst í að minnsta kosti eitt og hálft ár en hann kennir fjölskyldu fyrirsætunnar bardagaíþróttir.
Fyrirsætan Gisele Bündchen og ruðningskappinn Tom Brady ákváðu að skilja í haust eftir 13 ára hjónaband. „Við eiginkona mín höfum gengið frá skilnaði okkar undanfarna daga eftir 13 ára hjónaband. Við komumst að þessari niðurstöðu saman og hugsum með þakklæti um þann tíma sem við eyddum saman,“ skrifaði Brady eftir að þau gengu frá skilnaðinum.