Ástralski leikarinn Chris Hemsworth hefur ákveðið að taka sér tímabundið hlé frá leiklistinni eftir að hann komst að því að hann sé í hættu á að þróa með sér alzheimersjúkdóminn. Hemsworth er hvað þekktastur fyrir að fara með hlutverk Thors í kvikmyndum um ofurhetjuna.
Hemsworth sagði frá því í viðtali við Vanity Fair í síðustu viku að hann hefði nýverið komist að því að hann væri með tvö gen sem auka líkurnar á alzheimersjúkdómnum og öðrum elliglöpum.
Það að Hemsworth sé með tvö eintök af geninu ApoE4 bendir til þess að hann hafi hlotið það frá báðum foreldrum. Einn af hverjum fjórum er líklegur til að hafa eitt eintak af geninu. Hins vegar benda rannsóknir til þess að aðeins 2-3% séu með tvö eintök af umræddu geni. Hemsworth er því tíu sinnum líklegri til þess að greinast með heilabilun á efri árum.
Hann tók þó skýrt fram að ekki væri um greiningu að ræða, heldur aðeins auknar líkur. Þetta kom í ljós þegar hann var í þáttunum Limitless sem Disney+ framleiðir.
„Það er ekki eins og ég hafi fengið uppsagnarbréf,“ sagði Hemsworth sem er samt hættur störfum í þáttunum. „Þegar maður er viðkvæmur fyrir einhverju þá snýst allt um góðan nætursvefn, halda streitu í lágmarki og passa upp á að fá góða næringu og hreyfa sig. Þetta eru alltaf sömu tólin sem þarf stöðugt að nota,“ sagði Hemsworth.