Leikarinn Blair Underwood og leikkonan Josie Hart eru trúlofuð, en þau hafa þekkst lengi og verið góðir vinir í yfir 40 ár. Rúmt ár er liðið frá því að leikarinn skildi við eiginkonu sína til 27 ára, Desiree DaCosta.
Underwood fór með hlutverk í hinum geysivinsælu þáttum Beðmál í borginni, en þar lék hann Dr. Robert Leeds. Hann fór einnig með hlutverk í þáttunum L.A. Law yfir sjö ára tímabil.
Fyrr í vikunni léku Underwood og Hart frumraun sína á rauða dreglinum á Emmy-verðlaununum í New York-borg. Leikarinn deildi síðar mynd af þeim á rauða dreglinum og tilkynnti trúlofunina með fallegum texta.
Í færslunni segir leikarinn hápunkt kvöldsins hafa verið að ganga rauða dregilinn með nýju unnustu sinni. Hann segir þau hafa verið vinir í 41 ár, og að hún hafi ætíð verið til staðar fyrir hann. Rómantíkin virðist blómstra hjá parinu og hamingjuóskirnar rigndu inn á færslu leikarans.
Underwood og fyrrverandi eiginkona hans eiga þrjú börn á aldrinum 21 til 23 ára, en þau gengu í hjónaband árið 1994. Þau tilkynntu skilnaðinn í maí 2021 með færslu á Instagram, en þar útskýrðu þau fyrir aðdáendum sínum að þau hefðu ákveðið að binda enda á hjónabandið eftir að hafa hugsað vel og lengi um það.