Alls hefur 400 þúsund krónum verið safnað fyrir stjörnuköttinn Diegó sem ekið var á í gærmorgun.
Diegó er sennilega með vinsælustu köttum landsins en rúmlega hátt í tíu þúsund manns eru í Facebook-hópnum Spottaði Diegó. Kötturinn hefur vanið komu sína í Hagkaup í Skeifunni og kannast vegfarendur í Skeifunni margir hverjir við hann.
Eins og mbl.is hefur greint frá fór Diegó í aðgerð í gær og eyddi hann nóttinni á dýraspítala í nótt.
Aðgerðin sem Diegó gekkst undir kostaði í kringum 350 þúsund krónur. Aðdáendur kattarins styrktu söfnunina en einnig styrktu fyrirtækin A4 og Dominos, sem eru bæði með starfsemi í Skeifunni, söfnunina og gáfu sitthvorn hundrað þúsund kallinn.
Þar sem hærri upphæð safnaðist en þörf var á hefur verið ákveðið að gefa afganginn af upphæðinni til Villikatta.