„Þetta var frábært kvöld í París og mér fannst mjög gaman að geta komið og tekið við þessum verðlaunum. Mér þykir mjög vænt um þau,“ segir Ragnar Jónasson rithöfundur.
Bók Ragnars, Snjóblinda, var nýverið valin besta glæpasaga sem gefin hefur verið út í Frakklandi undanfarin 50 ár í kosningu þarlendra bókaunnenda. Ragnar tók við verðlaunum þessu til staðfestingar í París á miðvikudagskvöld.
Eins og kom fram í Morgunblaðinu fyrir skemmstu ákváðu franska bókaforlagið Points sem sérhæfir sig í kiljum og tímaritið Le Point að efna til sérstakra verðlauna í tilefni af 50 ára afmæli tímaritsins.
Tilnefndar voru átján bækur í þremur flokkum frá þessari hálfu öld, skáldsögur, glæpasögur og bækur almenns efnis. Það voru síðan lesendur sem völdu bestu bókina í hverjum flokki.
Í flokki bóka almenns efnis var bókin Gúlag-eyjarnar eftir Alexander Solzhenitsyn valin best en Where the Crawdads Sing eftir Deliu Owens varð hlutskörpust í flokki skáldsagna. Snjóblinda Ragnars hlaup afgerandi kosningu en meðal annarra tilnefndra höfunda var Arnaldur Indriðason fyrir bók sína, Mýrina.
Fjallað var um málið í Morgunblaðinu á föstudag.