Stjörnukötturinn Diegó er allur að koma til að sögn eiganda hans, Sigrúnar Óskar Snorradóttur, og er stefnt að því að hann fari í aðgerð á morgun.
Ekið var á Diegó á föstudagsmorgun og átti hann að fara í aðra aðgerð á þriðjudag. Henni var aftur á móti frestað þar sem að Diegó þurfti meiri tíma til að jafna sig eftir fyrri aðgerðina.
„Hann er orðinn líkur sjálfum sér, malar og borðar,“ segir í færslu Sigrúnar í Facebook-hópnum Spottaði Diegó.
„Hann biður voða vel að heilsa ykkur, þakkar fyrir hlýja kveðjur og hlakkar að hitta ykkur aftur í Skeifunni.“
Rúmlega tíu þúsund manns eru í Facebook-hópnum en kötturinn hefur vanið komur sínar í Skeifuna og kannast vegfarendur þar margir hverjir við hann.