Hljómsveitin Heimilistónar er samansett af nánu vinkonunum Elvu Ósk Óskarsdóttur, Ólafíu Hrönn Jónsdóttur, Vigdísi Gunnarsdóttur og Kötlu Margréti Þorgeirsdóttir en þær stefna á passa upp á stressið og anda inn og út fyrir jólin. Þær bjóða upp á jólatónleika í húsi Máls og menningar 17. desember en þar mun sveitin flytja frumsamin jólalög af plötu sinni Rugl góð jólalög, sem kom út í fyrra.
„Og kannski einhver lög sem fólk kannast við í gegnum tíðina. Við erum náttúrulega búnar að vera starfandi í yfir 20 ár,“ sagði Vigdís en hún og Katla mætti í morgunþáttinn Ísland vaknar og ræddu þar um tónlistina, vináttuna og jólin og rifjuðu upp stofnun Heimilistóna 1997.
Sveitin átti jólalag ársins á Rás 2 í fyrra, lagið Anda inn, en í ár hafa þær gefið út Vínilútgáfu af plötunni Rugl góð jólalög sem verður til sölu á tónleikunum. Þekktur leynigestur með „stórt hjarta“ verður á tónleikunum auk þess sem happdrætti mun fara fram á staðnum.
„Í þessu er boðskapurinn að taka því rólega. Þetta er ekki svona alvarlegt. Þó að jólin séu hátíðleg er bara um að gera að slappa af,“ sagði Katla í viðtalinu um lagið Anda inn sem heyra má hér að neðan.
Hægt er að kaupa miða á tónleikana, sem kosta 2.900 krónur, við innganginn á Máli og Menningu, alveg fram að tónleikunum sem verða kl. 21:00, 17. desember.
Sjáðu viðtalið við Vigdísi og Kötlu í spilaranum hér að neðan.