Sorgarþríhyrningurinn bestur

Aðstandendur myndarinnar með viðurkenningar sínar í Hörpunni.
Aðstandendur myndarinnar með viðurkenningar sínar í Hörpunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kvikmyndin  Triangle of Sadness, Sorgarþríhyrningurinn, hlaut  fern verðlaun á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum sem afhent voru í Eldborg í Hörpu í kvöld. Hlaut myndin flest verðlaun að þessu sinni. 

Ilmur Kristjánsdóttir og Hugleikur Dagsson voru kynnar kvöldsins og voru gamanmál þeirra á heldur svörtum nótum og bráðskemmtileg sem slík. Á meðal gestakynna voru bæði Íslendingar og útlendingar, þeirra á meðal Baltasar Kormákur kvikmyndaleikstjóri og danski leikarinn Nikolaj Coster-Waldau. 

Farin var heldur óvenjuleg leið í kynningum, m.a. þegar íslenskir sundgestir voru fengnir til að kynna tilnefningar til bestu evrópsku stuttmyndar. Gestir í Vesturbæjarlaug, nánar tiltekið, í heitum potti. Gæti varla verið íslenskara. Og sigurvegari í þeim flokki var Granny’s Sexual Life, eða Kynlíf ömmu, slóvensk-frönsk mynd eftir leikstjórana Urška Djukic og Émilie Pigeard. 

Kampakátur Ruben Östlund, besti evrópski leikstjórinn árið 2022.
Kampakátur Ruben Östlund, besti evrópski leikstjórinn árið 2022. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Besti leikstjóri

Ein helstu verðlaun kvöldsins voru þvínæst afhent, fyrir bestu leikstjórn og voru fengnir á svið leikarar sem léku í myndunum sem leikstjórarnir voru tilnefndir fyrir, eins og Hugleikur komst að orði með heldur ruglingslegum og skondnum hætti. Tilnefndir leikstjórar voru Lukas Dhont, Marie Kreutzer, Jerzy Skolimowski, Ali Abbasi, Alice Diop og Ruben Östlund. 

Verðlaunin hlaut Ruben Östlund fyrir Triangle of Sadness sem notið hefur mikilla vinsælda hér á landi sem víðar. Sagðist Östlund einkar ánægður með að vera í Reykjavík og þakkaði einni leikkvenna myndarinnar fyrir frábæra frammistöðu í því að kasta upp. Minntist hann einnig annarrar leikkonu í myndinni sem lést langt fyrir aldur fram, Charlbi Dean. 

Næst voru afhent verðlaun sem áður hafði verið tilkynnt um, m.a. fyrir klippingu og tæknibrellur og þessi flokkur verðlauna kallaður The Excellence Awards. Steig svo næst á svið spænsk söngkona, Jedet, og sagðist örlítið drukkin þegar henni gekk brösulega að lesa texta sinn af blaði. Kynnti hún til sögunnar Fipresci-verðlaunin sem eru veitt árlega leikstjóra fyrir fyrstu kvikmynd í fullri lengd. Verðlaunahafi var hin ítalska Laura Samani fyrir Piccolo corpo eða Lítill líkami. Samani felldi tár þegar hún tók við verðlaununum og voru það gleðitár. 

Urška Djukic og Émilie Pigeard hlutu verðlaun fyrir bestu stuttmynd.
Urška Djukic og Émilie Pigeard hlutu verðlaun fyrir bestu stuttmynd. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samstaða með Úkraínumönnum

Ný verðlaun voru kynnt til sögunnar af þremur ungmennum, verðlaun fyrir sjálfbærni nefnd Prix Film4Climate og hlaut þau framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fyrir að hafa sett á laggirnar loftslagsverkefnið „European Green Deal“ undir forsæti Ursulu von der Leyen, forseta  framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Þakkaði hún fyrir með vídeóávarpi. Þá hlutu allir úkraínskir kvikmyndaframleiðendur næstu verðlaun í sameiningu, Eurimage Co-Production Award, og var með þessu sýnd samstaða með Úkraínumönnum vegna innrásar Rússa í land þeirra. 

Tvenna hjá Östlund

Næst var röðin komin að besta handritshöfundi og samkeppnin hörð í þeim flokki, líkt og fleirum. Hlaut verðlaunin Ruben Östlund fyrir Triangle of Sadness og voru það önnur verðlaun hans þetta kvöld. Hughreysti hana aðra tilnefnda með þeim orðum að þeir myndu örugglega fá verðlaun fyrir handritsskrif í framtíðinni og var þá hlegið í salnum. Alltaf stutt í grínið hjá Östlund.  

Þrír kvikmyndagerðarmenn hlutu heiðursverðlaun Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í ár; Elia Suleiman, Margarethe von Trotta og Marco Bellocchio. Hlaut Suleiman verðlaun sem kallast The European Achievement in World Cinema Award fyrir áhrifamikinn feril í kvikmyndagerð og var þetta í fyrsta sinn sem palestínskur leikstjóri hlýtur verðlaunin. Von Trotta hóf feril sinn sem leikkona bæði á sviði og í kvikmyndum en var einnig virk í baráttunni gegn klámi og kvenfyrirlitningu og Bellocchio hlýtur verðlaun fyrir nýsköpun í sögufrásögn fyrir sjónvarpsseríuna Esterno notte. 

Spænska gamanmyndin best 

Eina íslenska kvikmyndin sem tilnefnd var í ár, Leynilögga, var næst, í flokki bestu gamanmyndar. Var körfuboltaliðið Stálúlfur fengið til að kynna hinar tilnefndu myndir en auk Leynilöggu voru tilnefndar El buen patrón frá Spáni og La fracture frá Frakklandi. Hannes Þór Halldórsson, leikstjóri Leynilöggu, virtist býsna spenntur en því miður fyrir hann laut El buen patrón verðlaunin. Var hún þó vel að þeim komin. Framleiðandi myndarinnar sagði það að vísu misskilning að myndin væri gamanmynd, hún væri i raun drama. Undir það tók leikstjórinn, Fernando León De Aranoa, líka. Kannski dramedía?

Marco Bellocchio með heiðursverðlaun sín.
Marco Bellocchio með heiðursverðlaun sín. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá var komið að besta leikara og spennan býsna mikil í salnum. Reyndist það vera Króatinn Zlatko Buric sem fór með eitt af aðalhlutverkum Triangle of Sadness og sú mynd nú komin með þrenn verðlaun. Og hafi spennan verið mikil um besta leikara var hún líklega meiri þegar kom að bestu leikkonu. Allar tilnefndar frábærar í sínum hlutverkum. Verðlaunin hlaut Vicky Krieps fyrir Corsage. Leikkonan er frá Lúxemborg og þakkaði fyrir sig með beinu streymi frá heimili sínu. 

Spænski leikstjórinn Fernando León De Aranoa og framleiðandinn Jaume Roures.
Spænski leikstjórinn Fernando León De Aranoa og framleiðandinn Jaume Roures. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búlgarska leikkonan Maria Bakalova fékk þann heiður að kynna bestu kvikuðu mynd Evrópu þetta árið. Voru ítalskir gestir ísbúðarinnar Gaeta Gelato fengnir til að segja frá myndunum sem var skemmtilegt uppátæki, líkt og svo mörg önnur í útsendingunni. Fyrir valinu varð No Dogs or Italians Allowed eftir leikstjórann Alain Ughetto.

Zlatko Buric var eldhress í Hörpu.
Zlatko Buric var eldhress í Hörpu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mariupolis 2 eftir Litháann Mantas Kvedaravičius hlaut verðlaun sem besta heimildarmynd og tók dóttir leikstjórans, Teja, við þeim þar sem hann er látinn. Sagði hún föður sinn hafa látið lífið við að færa fólki lyf en hann lést í Mariupol í Úkraínu í mars á þessu ári. 

Og þá var komið að aðalverðlaununum, bestu evrópsku kvikmyndinni og fengu hinir epísku leikarar, eins og Hugleikur kallaði þau, Ingvar E. Sigurðsson og Halldóra Geirharðsdóttir, þann heiður að kynna þau. Hópurinn sem sér um þættina Með okkar augum á RÚV sagði svo frá myndunum og velti þeim fyrir sér. Frábær hugmynd hjá Unnsteini Manuel og hans fólki. Og besta kvikmynd Evrópu árið 2022 er .... Triangle of Sadness. Fern verðlaun þar með komin í hús hjá Östlund. 

Evrópsku kvikmyndaverðlaunin eru þau þekktustu og virtustu í evrópskri kvikmyndagerð og voru sýnd í beinni útsendingu í 24 löndum, Íslandi þeirra á meðal. Verðlaunahátíðin er haldin annað hvert ár í Berlín og árin á milli í öðrum evrópskum borgum. Átti að halda hana árið 2020 í Reykjavík en vegna Covid-19 varð ekki af hátíðahöldum hér fyrr en nú í ár.  Margir þekktir leikstjórar og leikarar eru staddir á landinu og eru erlendir gestir um 700 talsins og erlendir fjölmiðlamenn um hundrað. 

Fyrir neðan má sjá nokkrar myndir til viðbótar frá gleðskapnum í Hörpu. 

Alain Ughetto skömmu eftir að hann hlaut verðlaun fyrir bestu …
Alain Ughetto skömmu eftir að hann hlaut verðlaun fyrir bestu kvikuðu (e. animated) myndina. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Leikstjóri, leikarar og framleiðendur Holy Spider.
Leikstjóri, leikarar og framleiðendur Holy Spider. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Jedet er spænsk leik- og söngkona og aðgerðasinni. Hún sendi …
Jedet er spænsk leik- og söngkona og aðgerðasinni. Hún sendi fingurkoss. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Guðni Tómasson og Sunna Valgerðardóttir.
Guðni Tómasson og Sunna Valgerðardóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Aron Mola og Anita Briem.
Aron Mola og Anita Briem. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Markéta Irglova og Emiliana Torrini.
Markéta Irglova og Emiliana Torrini. mbl.is/Eggert Jóhannesson







Álfrún Örnólfsdóttir og Sverrir Þór Sverrisson.
Álfrún Örnólfsdóttir og Sverrir Þór Sverrisson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Flýttu þér því hægt. Leyfðu öðrum að láta ljós sitt skína og þá fer allt miklu betur. Settu það í forgang að hafa samband við gamla vini.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Solja Krapu-Kallio
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Flýttu þér því hægt. Leyfðu öðrum að láta ljós sitt skína og þá fer allt miklu betur. Settu það í forgang að hafa samband við gamla vini.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Solja Krapu-Kallio
5
Torill Thorup