Ber vitni um skotárásina

Megan Thee Stallion bar vitni í gær.
Megan Thee Stallion bar vitni í gær. AFP/Frazer Harrison

Rapparinn Megan Thee Stallion segist hafa upplifað mikið áfall eftir að rapparinn Tory Lanez skaut á hana. „Ég trúi ekki að ég þurfi að koma hingað og gera þetta,“ sagði hún í dómshúsinu í Los Angeles í gær þegar hún bar vitni um meinta skotárás. Réttarhöld í málinu hófust í gær og munu standa yfir næstu vikur.

Stallion, sem réttu nafni heitir Megan Pete, segir Lanez hafa skotið hana í fætur þegar hún var að fara úr sundlaugarpartí heima hjá raunveruleikastjörnunni Kylie Jenner. 

Hin 27 ára gamla tónlistarkona sagðist hafa móðgað Lanez og beðið um að láta hleypa sér út úr lúxusbifreið áður en hann skaut fimm skotum að henni. Sagði hún rapparann hafa orðið reiða við hana eftir að hún sagði hann ekki hæfileikaríkan á tónlistarsviðinu. 

Sagði hún Lanez, sem réttu nafni heitir Daystar Peterson, hafa sagt sér að dansa áður en hann skaut á hana. 

„Trúði ekki að hann væri að skjóta á mig“

Atvikið átti sér stað 12. júlí 2020 í Hollywood-hæðum Los Angeles. Lanex hefur neitað ásökunum Stallion. Ef hann verður sakfelldur á hann yfir höfði sér allt að 23 ára fangelsisdóm. 

„Ég er í áfalli. Ég er hrædd. Ég heyrði skotin fara úr byssunni og ég trúði ekki að hann væri að skjóta á mig,“ sagði Stallion í dómshúsinu að því er fram kemur í umfjöllun LA Times. Stallion var með tárin í augunum og sagðist sjá eftir því að hafa nokkurn tíman sagt frá atburðinum. 

„Ég vildi bara óska að hann hefði skotið mig og myrt mig ef ég hefði vitað að ég myndi þurfa að ganga í gegnum þessa þolraun,“ sagði Stallion.

Laug að lögreglu

Segir hún Lanez hafa boðið henni eina milljón bandaríkjadala til að segja ekki frá árásinni því hann væri á skilorði vegna vopnalagabrots. Því sagði hún lögreglu upphaflega að hún hafi skorið sig á gleri.

Stallion sagðist einnig hafa logið af hræðslu við hvað lögreglan myndi gera við Lanez, sérstaklega vegna þeirra óeirða sem höfðu verið þetta sumar í kjölfar andláts Georges Floyd.

„Á þessum tíma, þá var mikið talað um lögregluofbeldi. Mér leið eins og ef ég myndi segja að þessi maður hefði skotið mig, þá myndi lögreglan skjóta fyrst og spyrja spurninga seinna,“ sagði Stallion. 

Brot úr byssukúlu voru fjarlægð úr fótleggjum Stallion en nokkur brot urðu eftir. Sagðist hún eiga erfitt með gang í ákveðnum skóm.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar