Glæný leikin kvikmynd um ævi og störf einnar ástsælustu pöppsöngkonu allra tíma, Whitneyjar Houston, verður frumsýnd um jólin. Með hlutverk hennar fer enska leikkonan Naomi Ackie.
„Röddin mín er farin, þú verður að byrja tónleikana í kvöld!“ segir Cissy Houston við unga dóttur sína, Whitney Elizabeth, í stiklu kvikmyndarinnar I Wanna Dance with Somebody. Þegar dóttirin hváir setur móðirin í brýnnar og mælir ákveðið: „Ekkert múður, ég er móðir þín!“ Andartaki síðar stendur Whitney feimin við hljóðnemann frammi fyrir fullum sal af fólki, þar á meðal hinum goðsagnakennda plötuútgefanda Clive Davis. Síðan hefur hún upp raust sína og öll þekkjum við hvað gerðist næst. Seinna í sömu stiklu heyrist Davis segja: „Ég gæti hafa verið að heyra bestu rödd sinnar kynslóðar.“
I Wanna Dance with Somebody verður frumsýnd um jólin og er hennar beðið með eftirvæntingu enda sagan í senn falleg og tragísk. Poppstjörnurnar verða ekki mikið stærri en Whitney Houston, þegar hún var á hátindi frægðar sinnar. Kórstúlkan hógværa sem sló í gegn á einni nóttu, söng eins og engill og átti hvern hittarann á fætur öðrum og seldi plötur í bílförmum. Henni virtust allir vegir færir en að því kom að brestir komu í ferilinn og lífið sjálft. Whitney steig æðisgenginn dans við eitrið og náði ekki að rétta úr kútnum. Ótímabært andlát hennar árið 2012 í baðkari á svítu 434 á Beverly Hilton er eins sorglegt og orðið getur. Hún var ekki nema 48 ára.
Naomi Ackie hafði aldrei leikið goðsögn í kvikmynd áður og þetta er fyrsta aðalhlutverkið. Hún býr þó að góðum grunni enda hefur hún verið að leika frá 11 ára aldri. Lengi vel ætlaði hún að halda sig við leikhúsið og þegar hún fékk hlutverkið í Stjörnustríðsmyndinni fyrir fjórum árum bjó hún ennþá hjá föður sínum sem mun vera stærsti aðdáandi hennar.
„Þetta verkefni hverfist um að heiðra minningu Whitneyjar og arfleifð,“ segir Ackie við Vanity Fair, „og að mínu viti þarf að vera gott jafnvægi milli ljóss og myrkurs. Sjálf er ég þakklát fyrir allt sem hún gaf okkur og vil ekki velta mér of mikið upp úr glímu hennar við fíknina. En það er eigi að síður hluti af hennar lífi og yfir það verður ekki skautað.“
Nánar er fjallað um myndina í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.