Lögmenn bandaríska leikarans Johnnys Depps segja að hann muni gefa milljónina, sem fyrrverandi eiginkona hans, leikkonan Amber Heard, þarf að greiða honum, til góðgerðarsamtaka.
Depp og Heard náðu dómssátt í gær sem felur í sér að hún þarf að greiða honum eina milljón bandaríkjadala, 142 milljónir króna, í skaðabætur.
„Það gleður okkur að geta loksins lokað þessum sársaukafulla kafla fyrir herra Depp, sem gerði það ljóst í gegnum réttarhöldin að hann vildi að sannleikurinn kæmi í ljós,“ sögðu Benjamin Chew og Camille Vasquez þegar greint var frá dómssáttinni í gær.
Depp höfðaði meiðyrðamál gegn fyrrverandi eiginkonu sinni vegna skoðanagreinar sem hún skrifaði í Washington Post árið 2018. Í henni sagðist hún vera þolandi heimilisofbeldis en nefndi ekki Depp á nafn. Réttarhöldin fóru fram í vor og var dæmt Depp í vil í byrjun júní.
Heard áfrýjaði dómnum og hafa lögfræðingar tekist á um málið síðan þá.