Í námi með 13 flugmönnum

Matthías nýútskrifaður um helgina með rauðan koll í stíl við …
Matthías nýútskrifaður um helgina með rauðan koll í stíl við bakgrunninn. Með honum á myndinni er kona hans, Brynja Ólafsdóttir félagsráðgjafi. Ljósmynd/Facebook

„Ég var að sleppa gegnum Kjalarnes eftir að þar var búið að vera lokað í fjóra tíma,“ segir Matthías Matthíasson sem margir tengja við hljómsveitina Papa, í hverri hann söng um árabil, og einhverja aðra kann að ráma í Matthías í sveitinni Reggae on Ice þótt síðan sé langt um liðið.

Nú er Matthías hins vegar nýbakaður húsasmiður, alla vega úr bóklega náminu, búinn að smíða hurð sem virðist hin mesta dvergasmíð af mynd að dæma og var að útskrifast úr Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi um helgina. Matthías er fæddur árið 1975 og er því augljóslega nokkuð yfir meðalaldri þeirra sem hefja og ljúka iðnnámi.

„Pínu vesen hvað ég var orðinn gamall“

„Ég hef alltaf verið eitthvað að dunda mér við að smíða, dytta að heima og smíða alls konar skemmtilegt. Svo var ég að opna búð fyrir ári og smíðaði allt inn í hana,“ segir Matthías frá og segist hafa haft vissa löngun til að kunna fagið aðeins betur.

„Það var pínu vesen hvað ég var orðinn gamall,“ segir Papinn fyrrverandi og hlær, „þegar ég var að sækja um í Tækniskólanum fékk ég bara þau svör að ekki væri hægt að taka mig inn, aðsókn yngri nemenda væri það mikil,“ heldur hann áfram.

Hann tók því að líta í kringum sig eftir öðrum valkostum og datt niður á fjölbrautaskólann, FVA eins og hann kallast í daglegu tali. „Þar er svona líka dásamleg braut fyrir menn eins og mig og greinilega líka fyrir flugmenn sem lentu í veseni í Covid. Ég held ég hafi verið í námi með þrettán flugmönnum í heildina,“ segir Matthías og minnir einna helst á sextán skálda bekkinn fræga í Lærða skólanum fyrir rétt rúmri öld.

Matthías tekur við prófskírteini sínu úr hendi Steinunnar Ingu Óttarsdóttur …
Matthías tekur við prófskírteini sínu úr hendi Steinunnar Ingu Óttarsdóttur skólameistara. Ljósmynd/Aðsend

Ekki hafi þó verið alveg átakalaust að komast inn í FVA, þar hafi aðeins verið pláss fyrir Matthías í dagskóla og leist honum ekki á blikuna að setjast á skólabekk 30 árum yfir meðalaldri samnemenda.

„Þannig að það var svona hálfgerð blessun fyrir mig að Covid skall á, því fyrsta önnin var svona að mestu haldin fyrir utan skólann. Og svo datt ég inn í námið sem ég var að reyna að komast í, svokallað dreifinám sem er algjör snilld fyrir svona eldri borgara eins og mig,“ segir Matthías en það fór fram með þeim hætti að hann mætti í skólann aðra hverja helgi en þess utan var um fjarnám að ræða.

Þarna ræðir hann um bóklega námið, teikningar og fleiri fræði er að húsasmíði snúa, verklegi hluti húsasmíðanáms hentar verr til fjarnáms, reyndar alls ekki.

Strokaðist allt út

„Ástæðan fyrir því að ég fór í þetta var að ég var búinn að koma mér býsna vel fyrir áður en Covid skall á, var leiðsögumaður ferðamanna, var með Airbnb-íbúðir og var að spila tónlist fyrir alla landsmenn og þetta strokaðist bara allt út,“ segir Matthías af lífi sínu fyrir faraldurinn eftirminnilega.

Spurningin hafi því verið að setjast bara niður og fara að horfa á Netflix eða fara að gera eitthvað eins og hann orðar það. Matthías tók síðari valkostinn. „Og það sér ekkert fyrir endann á því, nú er ég að fara í sveinsprófið í janúar og svo er spurningin hvort maður haldi ekki bara áfram eftir það,“ segir hann.

Ef til vill segðu gárungar að Matthías hefði reist sér …
Ef til vill segðu gárungar að Matthías hefði reist sér hurðarás um öxl með þessum smíðisgrip, listavel gerðri útidyrahurð. Svo er þó vonandi ekki. Ljósmynd/Aðsend

Við tökum örstutt framhjáhlaup um tónlistina í lífi Matthíasar og blaðamaður rifjar upp hina fornfrægu Reggae on Ice sem var algeng sjón á sviði Gauks á Stöng á ofanverðum tíunda áratug síðustu aldar.

„Ég held að við höfum hætt 1998,“ segir Matthías, „svo hætti ég í Pöpunum 2011 og hef bara verið úti um allt síðan að spila með öllum og í alls konar „show-um“ og bara verið á fullu í tónlistinni,“ segir Matthías og er minntur á frábæra frammistöðu Papanna á Fiskideginum mikla á Dalvík sumarið 2009 þar sem fiðluleikarinn Dan Cassidy átti stórleik í flutningi sveitarinnar á verkinu The Devil Went Down to Georgia sem The Charlie Daniels Band gerði heimsfrægt fyrir margt löngu.

Eins má geta þess að Matthías sendi nýlega frá sér plötuna Matt.

Sveittur að leita svefnlausna

Við snúum talinu að búðinni sem Matthías opnaði fyrir ári. „Ég hef náttúrulega verið að selja rúm síðan ég var nítján ára, eða svona að hluta til. Svo var ég að leita að lausn fyrir sjálfan mig af því að ég svitnaði svo mikið í svefni, ég var alltaf eins og dreginn upp úr Tjörninni. Þá benti mér einhver á að fá mér ullardýnu og ég fór eitthvað að gúggla það og þá var alltaf að dúkka upp breskt fyrirtæki sem heitir Naturalmat,“ segir Matthías.

Útskriftarhópurinn við athöfnina um helgina.
Útskriftarhópurinn við athöfnina um helgina. Ljósmynd/Aðsend

Hvatvísi hans hafi orðið til þess að hann dreif sig út til Bretlands og náði sér í dýnu. „Og nú er staðan sú að ég hef ekki svitnað í svefni í þrjú ár og á endanum varð það úr að ég varð svo hrifinn af þessu fyrirtæki að ég spurði hvort ég mætti ekki opna búð á Íslandi og nú er ég að selja lífrænar svefnvörur, til dæmis ullardýnur með hrosshári, kasmírull og kókos,“ útskýrir Matthías.

Hann kveður vitundarvakninguna vera mikla á vettvangi lífrænna svefnvara til móts við að sofa í gerviefnum sem haft geti ýmsar aukaverkanir á borð við nætursvita, neikvæð áhrif á ónæmiskerfið og fleira. „Pælingin er loftgæði og öndun,“ segir hann en í ljós kemur að það er engin tilviljun að hann er svo upptekinn af loftgæðum.

Veiktist alvarlega af myglusveppnum

„Sonur okkar veiktist mjög illa í mygludæminu þarna í Fossvogsskóla, hann var eitt þeirra barna sem veiktust hvað mest. Hann getur ekki verið með sínum bekkjarfélögum í stofu í dag þótt allt eigi að vera orðið hreint og fínt,“ segir Matthías en með „okkar“ vísar hann til sonar þeirra Brynju Ólafsdóttur félagsráðgjafa sem er kona hans. Tekur Matthías þó fram að skólinn geri allt til að koma til móts við drenginn og bæta úr stöðunni.

Matthías og Brynja ásamt Aissu Gonzales, yfirhönnuði Naturalmat.
Matthías og Brynja ásamt Aissu Gonzales, yfirhönnuði Naturalmat. Ljósmynd/Aðsend

Hann sé kominn með sitt fyrra þrek á ný og á fullt í íþróttum aftur en lítið þurfi til að út af beri og honum hraki. Þau Brynja eiga tvo syni að auki, 17 og 20 ára, sem báðir sigla hraðan byr á knattspyrnu- og handboltaferlum sínum. „Þetta eru föðurbetrungar,“ segir Matthías og hlær.

Við verslun sína starfar Matthías í fullu starfi og hafi náminu í húsasmíði ekki verið ætlað að opna dyr að fullu starfi á þeim vettvangi. „Ég var meira að hugsa þetta bara fyrir sjálfan mig og til að kunna aðeins meira í þessu en samt er ég nú búinn að smíða eina útidyrahurð. Ég hef mest gaman af að smíða fyrir sjálfan mig samt en eins og planið er núna langar mig að halda áfram og ljúka meistararéttindum í smíðinni,“ segir húsasmiðurinn nýbakaði.

Ekki er örgrannt um að freistandi sé að leggja sig …
Ekki er örgrannt um að freistandi sé að leggja sig í vinnunni starfi maður hjá Naturalmat sem Matthías opnaði fyrir ári. Hann gaf líka út plötu fyrir tveimur árum og var að ljúka námi í húsasmíði. Ljósmynd/Aðsend

Hann hélt vinum og fjölskyldu útskriftarveislu um helgina og tekur stefnuna því næst ótrauður á sveinsprófið sem haldið er yfir helgi í janúar. „Ég er búinn að græja mig aðeins upp og get smíðað töluvert á eigin verkstæði núna en ég sé aðallega fyrir mér að smíða svona eina og eina útidyrahurð og glugga, búðin er aðalmálið hjá mér,“ segir Matthías Matthíasson að lokum, sannarlega með mörg járn í eldinum.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Með réttu lagi ættir þú að koma málum þínum heilum í höfn. Ekki gefast upp á því að ná markmiðum þínum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Colleen Hoover
4
Snæbjörn Arngrímsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Með réttu lagi ættir þú að koma málum þínum heilum í höfn. Ekki gefast upp á því að ná markmiðum þínum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Colleen Hoover
4
Snæbjörn Arngrímsson