Svanhildur Hólm Valsdóttir framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs segir bersýnilegt að snjórinn sem féll á höfuðborgarsvæðinu um helgina fari ekki í manngreinarálit. Í vikunni hjálpaði hún manni að losna úr skafli og að átökunum loknum kom í ljós að þar var á ferðinni, eða öllu heldur fastur, Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands.
Svanhildur Hólm segir frá á Facebook.
„Í gær þegar ég var að koma í vinnuna sá ég bíl fastan í Borgartúninu og mann að reyna að ýta honum. Gyða Sólin sem ég er gat náttúrlega ekki látið sér slíkt tækifæri úr greipum ganga, svo ég keyrði bílinn minn upp á kant og fór út að hjálpa.
Ég sá bara hvíthærðan hnakkann á ökumanninum, sem ég gerði ráð fyrir að væri eldri maður, en spáði annars ekkert í það hver væri við stýrið, enda upptekin af því að ýta. Það gekk svona ljómandi vel og eftir nokkur „einn, tveir og“ losnar bíllinn og kunnugleg, örlítið nefmælt rödd segir: „Þakka ykkur kærlega fyrir hjálpina!“
„Það var nú ekkert,“ segir maðurinn sem var að ýta með mér, „við skuldum þér nú eitthvað fyrir Icesave og ýmislegt fleira!“
Ég var sem sagt að ýta Ólafi Ragnari úr skafli.
Já, krakkar mínir, þessi snjór fer ekki í manngreinarálit – hann þvælist fyrir fyrrverandi forsetum jafnt og öðrum,“ skrifar Svanhildur Hólm.