Ungt fólk fætt í kringum aldamótin síðustu gapir nú af undrun yfir hverju myndbandinu á fætur öðru á TikTok sem fjallar um svokölluð kúltúrbörn (e. nepo babies). Í myndböndunum eru taldar upp frægar stjörnur í skemmtanaiðnaðinum sem fæddust inn í geirann, það er, eiga foreldra sem á einn eða annan hátt tengjast kvikmyndaiðnaðinum.
Blöskrar mörgum þessi frændhygli sem virðist ríkja í iðnaðinum og virtust margir hissa á að komast að því að uppáhaldsleikarar þeirra í til dæmis Stranger Things og Euophoria eigi fræga foreldra. Það er til dæmis Maya Hawke, sem leikur í Stranger Things og er dóttir Umu Thurman og Ethan Hawke. Og svo er það Maude Apatow sem leikur í Euphoria og er dóttir leikstjórans Judd Apatow og leikkonunnar Leslie Mann.
Tímaritið Vulture kynti svo vel undir pottinum þegar þar birtist grein þar sem fjallað er ítarlega um kúltúrbörnin.
Virðist yngri kynslóðin erfitt með að kyngja þeim bita að stjörnurnar hafi átt greiðari leið inn í bransann vegna ætternis síns. Sum kúltúrbörn hafa stigið inn umræðuna, eins og til dæmis Maya Hawke, sem sagði að hún sem og önnur kúltúrbörn fái tækifæri sem aðrir fá ekki. Sagði hún það þó ekki þýða að tækifærin væru endalaus og að þetta væri líka erfið vinna.
Grein Vulture spratt upp úr orðum Lily Rose Depp, dóttur stórleikarans Johnny Depp og Vanessu Paradis, þegar hún neitaði algjörlega að frændhygli og kúltúrbörn væru til. „Fólk á netinu virðist hafa meiri áhuga á hver fjölskylda þín er heldur hvaða fólk það er sem ræður mann í hlutverk. Kannski nær maður að setja fótinn inn fyrir dyrnar, en maður er samt bara með annan fótinn. Það er mikil vinna að halda áfram eftir það,“ sagði hin unga Depp í viðtali við Elle, en hún hefur setið fyrir í herferðum franska tískuhússins Chanel frá því hún var unglingur.
TikTok-kynslóðin er ekki eina kynslóðin sem virðist vera gáttuð á umræðunni því eldri kynslóðir virðast vera enn gáttaðri á því að unga kynslóðin hafi ekki vitað að allir væru skyldir öllum í Hollywood. Það má þó útskýra það á einfaldan máta, mörg þeirra kúltúrbarna sem kynslóðin er hvað mest hissa eru einmitt af TikTok-kynslóðinni.
Eðli málsins samkvæmt man þessi kynslóð ekki eftir því þegar jafnaldrar þeirra fæddust og flettu ekki glanstímaritum þar sem fjallað var um barneignir stjarnanna.
Umræðuna um kúltúrbörnin er þannig búið að útskýra fyrir eldri kynslóðum á öðrum hverjum fjölmiðli í Bandaríkjunum og hefur umræðan líka náð austur yfir hafið til Bretlands.