Harry Bretaprins segir í nýrri bók sinni að Vilhjálmur Bretaprins hafi ráðist á hann. Guardian greinir frá og vísar í bókina sem fyrirhugað er að komi út hinn 10. janúar næstkomandi.
Harry segir árásina hafa átt sér stað á heimili hans í Lundúnum árið 2019. Rifrildi þeirra bræðra hafi blossað upp vegna þess hve ósáttur Vilhjálmur var yfir hjónabandi þeirra Harry og Meghan. Harry segir Vilhjálm hafa kallað Meghan erfiða og ókurteisa.
Spennustigið magnaðist milli þeirra bræðra. „Hann reif í skyrtuna mína, sleit hálsmenið mitt og hrinti mér í gólfið,“ skrifar Harry í bókinni. Hann segist hafa lent á skál, því þeir hafi staðið inni í eldhúsi, með þeim afleiðingum að hann skarst á baki.
Mikil leynd hefur hvílt yfir efni bókarinnar og brot úr henni ekki birst fyrr en nú þó stiklur úr viðtölum við Harry hafi birst í fjölmiðlum strax eftir áramót.
Harry segir að þegar Vilhjálmur hafi komið í heimsókn þennan tiltekna dag hafi hann viljað talað um erfiðleika í sambandi þeirra bræðra og samband þeirra við fjölmiðla. Vilhjálmur hafi strax verið reiður þegar hann kom til Harrys. Því hafi samtalið þróast hratt.
Eftir að hafa skellt litla bróður sínum í gólfið hafi Vilhjálmur hvatt hann til að slá til baka en Harry vildi ekki gera það.
Harry sagði ekki eiginkonu sinni strax frá árásinni heldur sálfræðingnum sínum. Þegar hún tók eftir sárinu á baki hans hafi hann að lokum sagt henni frá.