Fyrrverandi hershöfðingi í breska hernum, Richard Kemp, segir Harry hafa svikið félaga sína í hernum með því að ljóstra upp um manndráp sín í Afganistan en Harry segist hafa drepið 25 talíbana.
„Hann er að gefa í skyn að breski herinn þjálfi fólk til að horfa ekki á óvininn sem manneskju, sem er langt frá því að vera satt,“ segir Kemp. „Herinn leggur mikla áherslu á að gera greinarmun á venjulegum borgurum og þeim sem berjast á vígvellinum.“
Þá bendir Kemp á að með þessu hafi hann gert sig að enn stærra skotmarki eftir að konungshöllin hætti að borga fyrir öryggisgæslu hans.
„Með þessu er hann að grafa undan eigin öryggi. Hann skýtur sig í fótinn. Harry hafði gott orðspor eftir að hafa barist með hernum. Nú er vegið að þessu orðspori og enginn mun líta hann sömu augum aftur. Margir höfðu hátt álit á honum, þar á meðal ég.
„Þetta mun einungis hvetja fólk til þess að ráðast á breska hermenn hvar sem þeir eru staddir í heiminum,“ segir Kemp.
Fleiri úr hernum hafa einnig gagnrýnt Harry. Eins og til dæmis Ben McBean sem missti bæði hönd og fót í Afganistan.
„Þetta fær mann til þess að hugsa hvaða fólk hann er að umgangast núna. Ef þetta væri gott fólk þá væru þau búin að segja honum að hætta,“ sagði McBean á Twitter.
„Þetta eru mál sem maður ræðir ekki opinberlega. Þetta á bara heima meðal þeirra sem voru á staðnum. Almennir borgarar þurfa ekki að vita hvað maður var að gera þarna. Nú er hann í Bandaríkjunum með öryggisgæslu. Það er ástæða fyrir því að maður fer ekki út í smáatriði. Maður bara veit að maður á ekki að gera það,“ sagði McBean í viðtali við Good Morning Britain.