Sérsveit ríkislögreglustjóra tók þátt í aðgerðum lögreglunnar á Húsavík þegar Kristján Einar Sigurbjörnsson var handtekinn þar í gærkvöldi. Sérsveitin var þó ekki kölluð sérstaklega til í verkefnið. Kristjáni Einari var sleppt úr haldi lögreglu eftir yfirheyrslu.
Lögreglan á Húsavík staðfestir þetta í samtali við mbl.is en segist ekki geta tjáð sig um málið frekar.
Kristján Einar tjáði sig sjálfur um málið í gærkvöldi og sagði við mbl.is að hann hafi ekki verið handtekinn í tengslum við rannsókn á líkamsárás, eins og áður hafði komið fram, heldur hafi verið kannað hvort hann væri að keyra bifreið undir áhrifum áfengis.
Kristján Einar er fyrrverandi kærasti söngkonunnar Svölu Björgvinsdóttur. Á síðasta ári var hann handtekinn á Málaga á Spáni fyrir slagsmál og sat þar inni í átta mánuði. Hefur hann verið áberandi á samfélagsmiðlum síðan hann losnaði og kom aftur til landsins.