Hin umdeilda samfélagsmiðlastjarna Andrew Tate var leiddur fyrir dómara í Búkarest í Rúmeníu í handjárnum í dag. Tate var dæmdur í 30 daga gæsluvarðhald hinn 30. desember, grunaður um kynferðisbrot og mansal. Hyggst hann áfrýja þeim dómi.
Tate, sem er 36 ára breskur og bandarískur ríkisborgari með 4,4 milljónir fylgjenda á Twitter, var handtekinn 29. desember síðastliðinn rétt fyrir utan Búkarest, höfuðborg Rúmeníu. Bróðir hans, Tristan, var einnig handtekinn og tveir aðrir karlmenn frá Rúmeníu. Hafa þeir sætt gæsluvarðhaldi síðan.
Eugen Vidineac, lögmaður Tates, sagði AP-fréttastofunni að búist sé við ákvörðun áfrýjunardómstólsins í Búkarest seinna í dag.
Deild innan rúmensku lögreglunnar sem rannsakar skipulagða glæpastarfsemi sagði að karlmennirnir fjórir væru grunaðir um að hafa brotið kynferðislega gegn sex manns.
Lögregla hefur hingað til lagt hald á 15 lúxusbifreiðar, þar af sjö í eigu Tate-bræðaranna, og leitað sönnunargagna í tíu húseignum eða landareignum sem skráðar eru á félög í eigu þeirra. Ramona Bolla, talsmaður ákæruvaldsins, sagði að ef þeim tækist að sanna að karlmennirnir hefðu hagnast fjárhagslega á mansali myndi rúmenska ríkið leggja hald á eignirnar. Hagnaðurinn af þeirri eignaupptöku myndi fjármagna rannsóknina sem og renna í skaðabætur til fórnarlambanna.
Ef úrskurður um gæsluvarðhald yfir Tate-bræðrum verður ekki felldur úr gildi í dag, getur ákæruvaldið farið fram á hámarksgæsluvarðhald, allt að 180 daga. Ef gæsluvarðhaldsúrskurðurinn verður felldur úr gildi er talið líklegt að þeir verði settir í stofufangelsi eða verði úrskurðaðir í farbann frá Rúmeníu.