Lisa Marie Presley verður jörðuð skammt frá föður sínum og syni í Graceland í bandaríska ríkinu Tennessee, að sögn fulltrúa fjölskyldunnar.
Söngkonan, sem lést eftir að hafa fengið hjartastopp á heimili sínu á fimmtudaginn, var 54 ára gömul.
Hún var einkabarn rokkkóngsins Elvis Presley.
„Lisa Marie mun hvíla í Graceland, við hlið sonar síns, Ben,“ sagði fulltrúinn, að því er BBC greindi frá.
Sonur hennar, Benjamin Keough, framdi sjálfsvíg í ágúst árið 2020, aðeins 27 ára.
Í einum af síðustu færslum sínum á samfélagsmiðlum deildi Presley ritgerð sem hún skrifaði fyrir tímaritið People um erfiðleika sem hún glímdi við eftir fráfall sonar síns.
„Ég hef þurft að takast á við dauða, sorg og missi síðan ég var níu ára. Ég hef fengið minn skerf af slíku alla mína ævi og einhvern veginn komst ég þetta langt,“ skrifaði hún. „Dauðinn er hluti af lífinu hvort sem við sættum okkur við það eða ekki og sorgarferlið er það líka.“
Hún lætur eftir sig þrjár dætur, leikkonuna Riley Keough, tvíburana Finley og Harper Lockwood og móðurina Priscillu.
Lisa Marie varð einkaerfingi að Graceland þegar hún var 25 ára. Húsið sem stendur á lóðinni er 17.500 fermetrar, að því er kemur fram á vefsíðu Graceland.
Glæsivillan er það húsnæði sem er næstoftast heimsótt í Bandaríkjunum á eftir Hvíta húsinu.
Nokkrum dögum fyrir dauða sinn heimsótti hún Graceland til að fagna afmælisdegi Elvis Presley sem hefði orðið 88 ára þann dag hefði hann lifað.