Leitinni að leikaranum Julian Sands miðar hægt áfram. Hans hefur verið saknað síðan á föstudag í síðustu viku en erfið veðurskilyrði í San Gabriel-fjöllum í Kaliforníu í Bandaríkjunum hafa komið í veg fyrir að björgunarsveitir geti leitað á jörðu niðri.
Sands er 65 ára og frá Bretlandi. Hann sló í gegn á níunda áratug síðustu aldar í kvikmyndinni Room With a View. Bifreið hans fannst við fjallsrætur San Antonio-fjalls, sem í daglegu tali er kallað Mount Baldy. Sími Sands sendi frá sér merki síðastliðna helgi sem gæti gefið vísbendingu um staðsetningu hans.
Björgunarsveitir og lögregla notast við dróna sem og þyrlur til að leita að honum þegar veður leyfir en veður hefur verið slæmt í Kaliforníu á undanförnum vikum. Mikil úrkoma, lægðir og hver fellibylurinn á fætur öðrum hefur farið yfir landið.
Sands er reyndur fjallgöngumaður og hefur sagt í viðtölum að hann sé hvað hamingjusamastur þegar hann er í grennt við fjallstind á köldum morgni. Á tíunda áratug síðustu aldar fór hann í fjallgöngu í gegnum Andes-fjöll og lenti í miklu óveðri í 6 þúsund metra hæð.
Aðstæður í San Gabriel-fjöllum um þessar mundir. Hafa björgunarsveitir þurft að fara í yfir tólf útköll í fjöllunum á síðustu vikum. Að minnsta kosti tveggja annarra er saknað.
„Þetta eru gríðarlega hættulegar aðstæður, jafnvel fyrir reynda fjallgöngumenn. Veðrið um þessar mundir og lélegt skyggni gerir það að verkum að gríðarlega erfitt er að leita á fjallinu. Þegar við sendum úr leitarflokka, þá spilar veðrið stóra rullu í því hversu mikið við getum gert,“ segir í tilkynningu frá lögreglustjóranum í San Bernadino.