Margrét Þórhildur Danadrottning mun fara í aðgerð á baki undir lok febrúar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá dönsku krúnunni en í tilkynningunni segir að drottningin hafi lengi glímt við bakverki sem hafi versnað undanfarið.
Drottningin verður skorin upp á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn þann 22. febrúar næstkomandi og mun liggja á spítalanum eftir aðgerðina.
Vegna aðgerðarinnar þarf drottningin að draga sig í stutt hlé og verður því helstu viðburðum á dagskrá hennar aflýst eða frestað. Þá munu aðrir úr konungsfjölskyldunni sinna hluta af verkefnum drottningarinnar á meðan hún jafnar sig eftir aðgerðina.