Búið er að svipta hulunni af frímerki Karls III. Bretakonungs. Konungurinn horfir til hægri á frímerkinu og verða frímerki í fyrsta flokki djúpfjólublá.
Frímerkin eru eitt af því sem breytist þegar nýr þjóðhöfðingi tekur við völdum í Bretlandi. Myndin á frímerkjunum er sú sama og notuð er á myntpeningana.
Gert er ráð fyrir að frímerkin fari í sölu hinn 4. apríl næstkomandi.
Haldið er í litina á frímerkjunum sem hönnuð voru fyrir móður Karls, Elísabetu II. Bretadrottningu. Annars flokks frímerki verða dökkgræn, stór fyrsta flokks frímerki verða turkísblá og stór annars flokks frímerki verða líka græn.