Burt Bacharach er látinn, 94 ára að aldri. Bacharack, sem var einn þekktasti dægurlagahöfundur Bandaríkjanna, lést á heimili sínu í gær, að því er kemur fram í yfirlýsingu frá upplýsingafulltrúa hans.
Bacharach samdi hundruð vinsælla dægurlaga á ofanverðri síðustu öld, mörg í samvinnu við textahöfundinn Hal David. Meðal laga hans eru I Say A Little Prayer, Walk On By, What The World Needs Now Is Love og Raindrops keep fallin' on My Head.
Hann hlaut sex Grammy-verðlaun á ferlinum og þrenn Óskarsverðlaun fyrir tónlist sína. Talið er að yfir þúsund listamenn hafi hljóðritað lög eftir Bacharach.
Bacharach, hélt tónleika í Eldborgarsal Hörpu árið 2016. Í samtali við Morgunblaðið fyrir tónleikana sagði hann að tónlist hans væri í grunninn mjög hlaðin tilfinningum. „Hún er samin frá mínum dýpstu hjartarótum og hún er gerð til þess að láta fólkinu sem hlýðir á hana líða vel.“