Kvikmyndagagnrýnandi breska blaðsins Guardian, Stuart Heritage, veltir því fyrir sér í nýrri rýni á Netflix-myndinni You People hvort tími kossa í kvikmyndum sé liðinn. Heritage vísar í þátt af The Brilliant Idiots-hlaðvarpinu þar sem grínistinn Andrew Schulz segir frá því hvernig kossinn í lok You People var gerður með tölvutækni, CGI-tækni svokallaðri (e. computer-generated imagery).
„Ég veit ekki einu sinni hvort ég ætti að deila þessu rugli,“ sagði Schulz. „Þetta er CGI. Ég sver til Guðs. Ég er þarna, ég er að horfa á brúðkaupiið, ég sé þau halla sér að hvort öðru til að kyssast, síðan stoppa andlit þeirra í burtu frá hvort öðru. Og ég velti fyrir mér hvernig þau ætla að gera þetta í myndinni. Þau hljóta að klippa bara þarna. En síðan, í myndinni, þá sér maður þau halla sér hvort að öðru, og síðan sé maður andlit þeirra hverfast inn í hvort annað aðeins og í falskann koss,“ sagði Schulz.
Heritage segist ekki vita hvernig honum líði með þessa þróun ef það sem Schulz sagði reynist rétt. „Auðvitað er hægt að láta tvær persónur kyssast í þykjustunni með CGI. Það er hægt að gera allt með CGI. CGI hjálpaði Thanos að kasta tunglinu í Iron Man, þannig það er alveg hægt að láta Jonah Hill kyssa Lauren London. En hins vegar líður manni eins og þetta sé svindl,“ segir Heritage.
Hann bendir á að í rómantískum gamanmyndum eins og You People skipti kossar máli, þeir veiti áhorfandanum góða tilfinningu. En kossar hafi líka verið falsaðir áður. Hann tekur dæmi úr nýrri jólamynd leikkonunnar Lindsay Lohan og segir frekar augljóst að tvífari Lohan hafi verið fengin í senuna þar sem persóna hennar kyssi mótleikarann.
Í heimsfaraldrinum hafi svo sóttvarna vegna verið flókið að taka upp kossa. Það hafi verið leyst með því að annað hvort fá leikara til að sótthreinsa munna sína fyrir og eftir kossa, eða nota skerma sem klipptir voru út í eftirvinnslunni.
„Þannig þetta hefur verið gert áður. En allir þessir kossar eru samt raunverulegir, hvort sem það var notuð önnur manneskja eða plast á milli. CGI er allt annað stig. Við erum með tvær manneskjur og látum þær gera eitthvað sem þær gerðu í reynd ekki, og það hlýtur að skapa fjölda vandamála fyrir framtíð leiklistarinnar,“ segir Heritage og veltir því upp hvort leikarar þurfi í framtíðinni að taka það fram í samningum sínum að ekki megi láta þá gera eitthvað í eftirvinnslunni sem þeir gerðu ekki við tökur á verkefnum. Hann veltir því líka fyrir sér hvort kynlífssenur í kvikmyndasögu framtíðarinnar verði fölsuð.