Álíka mikil óreiða hefur einkennt veðrið síðustu vikur og kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Lægðirnar koma líkt og á færibandi yfir landið og hver viðvörunin rekur aðra. Veðurfræðingar eru kannski orðnir jafn þreyttir og allir hinir á lægðunum.
Kristján Freyr vakti athygli á því á Twitter í gær að svo virtist sem Sigurður Jónsson veðurfréttamaður bölvaði kortinu þegar hann hóf veðurfréttatímann á dögunum. „Já, komið þið sæl. Ef við byrjum á því að skoða helvítis kortið og þróunina næstu daga,“ skrifar Kristján við myndskeið af Sigurði.
Líklegra er þó að Sigurður hafi sagt yfirlitskortið, en ekki „helvítis kortið“, enda ekki á fyrsta árinu sínu í veðurfréttunum. Það er þó misjafnt hvað fólk heyrir.
„Já, komið þið sæl. Ef við byrjum á því að skoða helvítis kortið og þróunina næstu daga ...“ pic.twitter.com/zvbhS0jIVS
— Kristján Freyr (@KrissRokk) February 9, 2023