Skoski tónlistarmaðurinn Lewis Capaldi, sem þekktur er fyrir hugljúfa rödd og rómantísk ástarlög, er kominn með kærustu. Hann frumsýndi nýju ástina í partíi eftir bresku tónlistarverðlaunin á dögunum.
Sú heppna heitir Ellie MacDowall og er 23 ára gömul leikkona. Hún lærði sviðslistir í MGA Academy í Edinborg og útskrifaðist árið 2020.
Fram kemur á vef Daily Mail að parið hafi verið saman í nokkra mánuði en hafi þó hingað til valið að halda sambandinu fjarri sviðsljósinu. Það breyttist hins vegar þegar þau mættu saman í partí eftir bresku tónlistarverðlaunin þar sem þau sáust kyssast og dansa saman langt fram á nótt.
„Þetta er opinbert, Lewis er ástfanginn og gæti ekki verið ánægðari. Hann hefur verið með Ellie í nokkurn tíma núna,“ sagði heimildarmaður The Sun. „Það er mjög ljúft að sjá hann svona hamingjusaman og Ellie dýrkar hann greinilega líka,“ bætti hann við.