Allt gekk á afturfótunum í Melodi Grand Prix á danska ríkisútvarpinu, DR, á laugardagskvöld. Vitlaust númer birtist á skjánum hjá íslensku þátttakendunum Brynju Mary og Söru Victoriu Sverrisdætrum, kosningaappið lá niðri og atkvæði í gegnum sms bárust seint og illa.
Færeyska TikTok-stjarnan Reiley vann keppnina sem gagnrýnd hefur verið í dönskum fjölmiðlum síðan á laugardagskvöld. Verður hann fyrsti Færeyingurinn til að keppa í Eurovision-söngvarkeppninni sem að þessu sinni fer fram í Liverpool á Bretlandi.
Fyrir keppnina hafði Brynju og Söru verið spáð sigri. Lentu þær í því í beinni útsendingu ekki bara einu sinni heldur tvisvar að míkrófónar þeirra voru ekki tengdir í viðtölum bak við tjöldin.
Melodi Grand Prix fékk slæma útreið í Ekstrabladet og BT í gær, blaðamenn BT segja það hafa verið eins og að horfa á kvikmyndina Titanic.
Þá er það einnig gagnrýnt í Billedbladet að Reiley sigurvegari keppninnar hafi fengið undanþágu vegna lags síns Breaking My Heart. Lagið hafði hann áður spilað á tónleikum, en slíkt er ekki leyfilegt í undankeppni fyrir Eurovision. Spilaði hann lagið á tónlistarhátíðinni Slow Life Slow Live í Seúl í Suður-Kóreu síðasta haust.
Auk þess notast hinn færeyski Reiley við „auto tune“ í lagi sínu, en slíkt er ekki heldur leyfilegt.