Móeiður Júníusdóttir tekur í fyrsta sinn þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins þrátt fyrir að vera enginn nýliði í tónlistarlífinu á Íslandi. Lag Móeiðar í keppninni í át heitir Glötuð ást og hefur yfir sér ákveðinn klassískan blæ.
Móeiður var í hljómsveitinni Bong á sínum tíma en hún tók sér frí frá tónlistinni í langan tíma. Árið 2021 gaf hún út sitt fyrsta lag um langt skeið og á síðasta ári gaf hún út lag ásamt Ara Arnalds, syni sínum. Í dag er hún kennari í unglingadeild þar sem hún kennir íslensku. Hún er þar að auki guðfræðingur og þriggja barna móðir.
mbl.is fékk að kynnast Móeiði aðeins nánar en hún stígur á svið laugardagskvöldið 18. febrúar í Söngvakeppni sjónvarpsins.
Hvað er Eurovision í þínum huga?
„Eurovision er í mínum huga menningarlegur viðburður sem hefur mikilvægu hlutverki að gegna fyrir þjóðina. Það eru alltaf færri og færri viðburðir sem ná að sameina okkur sem þjóð í gleði og skemmtun. Eurovision skapar ákveðna festu með því að vera árlegur viðburður og er þannig einn af þeim viðburðum sem rammar inn líf okkar í síbreytilega samfélagi. Það er verðmætt Eurovision er jafnframt mikilvægur vettvangur fyrir nýja tónlist og gefur okkur tækifæri til þess að heyra og njóta fjölbreyttrar tónlistar frá ólíkum þjóðum. Það þykir flestum vænt um Eurovision.“
Hefur þig alltaf langað til að keppa í Söngvakeppninni?
„Sú hugdetta að keppa í Söngvakeppninni er ný af nálinni hjá mér þótt ég hafi starfað nokkuð lengi í tónlist á sínum tíma. Leiðir okkar Söngvakeppninnar lágu einhvern veginn ekki saman á þeim tíma.“
Af hverju ákvaðstu að gera það í ár?
„Núna þegar ég hef snúið mér aftur að tónlistinni eftir langt hlé var það einhvern veginn eðlilegt og rökrétt skref fyrir mig. Þurfti ekki að hugsa það neitt mikið heldur var þetta svona ákvörðun sem ég tók út frá innsæinu. Ég hef aðeins einu sinni áður tekið þátt í keppni í tónlist og það var í fyrstu söngkeppni framhaldsskólanna. Þátttaka mín í þeirri keppni markaði ákveðið upphaf fyrir mig á tónlistarbrautinni og það er því kannski viðeigandi að taka þátt í annarri keppni núna þegar ég er að upplifa ákveðið nýtt upphaf í tónlistinni.“
Hver er þín fyrsta Eurovision-minning?
„Mín fyrsta Eurovision-minning er þegar ég fékk að vaka og horfa með eldri systrum mínum á Eurovision í pínulitlu túbusjónvarpi árið sem Ísrael vann með laginu Halleluja“. Hljómsveitin hét Milk and Honey with Gali. Ég varð fyrir sterkum áhrifum af glamúrnum, sviðsetningunni, fötunum og tónlistinni.“
Hvert er þitt uppáhalds-Eurovision-lag?
„Halleluja í æsku en Euphoria, sænska vinningslagið 2012, í seinni tíð.“
Hvert er flottasta Eurovision-dress allra tíma?
„Ég var mjög hrifin af einfaldleika kjólsins sem austurríski vinningshafinn Conchita var í árið 2017. Það var klassískur glamúr yfir honum. Sheldon Riley var líka í æðislegu dressi í ástralska framlaginu árið 2022. Það var alvöru tískuyfirlýsing.“
Hvað er það við þitt lag sem sker sig úr frá öðrum lögum Söngvakeppninnar í ár?
„Lagið mitt, Glötuð ást, er dramatísk kraftballaða þar sem einfaldleikinn er í fyrirrúmi. Áherslan er á röddina, píanó og strengi. Það hefur yfir sér ákveðinn klassískan blæ sem sker sig e.t.v. þannig aðeins frá hinum lögunum í ár.“
Hvernig hélst þú upp á Eurovision á síðasta ári?
„Ég horfði á Eurovision í fyrra með fjölskyldunni heima í stofu. Venjulega hittumst við þó öll stórfjölskyldan og erum með Eurovision-partý heima hjá mömmu og manninum hennar á æskuheimilinu mínu. Við erum mörg og það er alltaf mikið stuð.“
Hvaða Eurovisionlag værir þú líkleg til að syngja hástöfum í karíókí?
„Ég er ólíkleg til þess að syngja í karíokí, hef bara einu sinni gert það. En ef ég syngi Eurovisionlag væri ég líkleg til þess að syngja ísraelska lagið Toy með Nettu með tilþrifum.“