Leikarinn Penn Badgley segist óska þess að hann þyrfti ekki að leika í jafn mörgum kynlífssenum og hann hefur gert á ferli sínum sem leikari í Hollywood. Hann segir það mikilvægt fyrir einkalíf sitt að hann þurfi ekki að leika kynlíf á skjánum. Badgley, sem nú fer með aðalhlutverkið í þáttunum You sem slegið hafa í gegn á streymisveitunni Netflix, segist hafa rætt við framleiðanda þáttanna og fengið að fækka senunum.
„Ég vil vera trúr í mínu sambandi. Það er mikilvægt fyrir mig. Og í rauninni, þá var það upphaflega ástæðan fyrir því að ég vildi hafna þessu hlutverki. Ég sagði engum það. En það er ástæðan,“ sagði Badgley í viðtali við Variety.
Badgley hefur verið giftur Domino Kirke-Badgley síðan 2017, en eiginkona hans hvatti hann til að taka við hlutverkinu í þáttunum.
Færri kynlífssenur eru í fjórðu seríu af You sem kom inn á streymisveituna fyrir skömmu, og í þeim eru leikararnir allir fullklæddir. Ástæðan er sú að Badgley ræddi við höfund þáttanna, Söru Gamble og tók hún vel í óskir hans.
„Ég er mjög jarðbundinn í hugsun. Ég sagðist vita vel að það væri ekki hægt að sleppa þeim alveg, því það eru ákveðnir hlutir í erfðaefni þáttanna, og ég skrifaði undir samning. Þannig ég sagði bara að ef ég fengi að ráða, yrði þeim haldið í lágmarki,“ sagði Badgley.
You-þættirnir fjalla um raðmorðingjann Joe Goldberg, sem glímir sömuleiðis við kynlífsfíkn og hvernig hann klófestir þær konur sem hann heillast af.