Söngkonan Saga Matthildur Árnadóttir vann Idol stjörnuleit á dögunum. Sama dag kom út sigurlag hennar sem ber nafnið Leiðina heim.
Lagið var samið í lagahöfundabúðum Iceland Sync og Mantik Music í október 2022 í Greenhouse Studios af Klöru Ósk Elíasdóttur (Klöru Elias), Malthe Seierup og Danny McMillan. Klara færði svo textann yfir á íslensku og Þormóður Eiríksson endurpródúserar og útsetur lagið ásamt Klöru Elias sérstaklega fyrir Idolið.
Saga Matthildur er 24 ára gömul, fædd og uppalin í Bolungarvík. Hún er nemi í Háskóla Íslands og starfar hjá félagsmiðstöðinni Hólmaseli í Breiðholti.
Hana hefur alltaf dreymt um að verða tónlistarkona. Hún hefur sungið og spilað á hljóðfæri frá barnsaldri. Saga Matthildur lærði djass-söng í Tónlistarskóla FÍH og spilar bæði á gítar og píanó.
Draumurinn er að fá að lifa og hrærast í tónlistinni og hafa hana að atvinnu. Eftir að hafa tekið þátt bæði í Söngvakeppni framhaldsskólanna, Ísland Got Talent og nú Idol – er hún komin til að vera. Framundan er upptaka og útgáfa á plötu og að troða upp í kjölfar Idol.
„Ég vil að það sem ég syng sé með boðskap og komi frá hjartanu. Hlakka til að leyfa ykkur að heyra plötuna, ég er allavega mjög spennt að komast inn í stúdíó og skapa,“ er haft eftir Sögu í tilkynningu.