Bragi Bergsson tók þátt í Idol í Svíþjóð árið 2018 og hefur unnið að tónlist síðan þá. Á meðan heimsfaraldurinn geisaði tók hann sér pásu en sá fyrir sér að það væri fullkomið að snúa aftur í Söngvakeppni sjónvarpsins hérna heima á Íslandi.
Bragi er 29 ára og fæddur í Reykjavík, en alinn upp í Gautaborg í Svíþjóð. Bragi kom þó til Íslands á hverju sumri þegar hann var barn og varði þá tíma í Reykjavík, á Akureyri og Akranesi.
Auk þess að sinna tónlistinni hefur Bragi spilað fótbolta, með sænsku liðunum IFK Gautaborg og GAIS, sem og ÍBV og Fylki hérna heima. Hann er nú í fjölmiðlafræði og markaðsfræði í Háskólanum í Stokkhólmi og hefur unnið sem kennari meðfram skóla.
Bragi syngur lagið Stundum snýst heimurinn gegn þér næsta laugardagskvöld, 18. febrúar.
Hvað er Eurovision í þínum huga?
„Það er bara gott partí sem mér finnst að fjalli mikið um „respect“. Var alltaf að horfa á þetta sem krakki með fjölskyldunni og annarri fjölskyldu úti í Svíþjóð. Núna er alltaf eitthvað Eurovision-partí sem maður fer í á hverju ári.“
Hefur þig alltaf langað til að keppa í Söngvakeppninni?
„Já og nei. Hef alltaf fundist þetta vera gaman og séð mig fyrir mér vera á Eurovision-sviðinu. En hélt bara aldrei að það myndi gerast.“
Af hverju ákvaðstu að gera það í ár?
„Eftir sænska Idol var ég á fullu í tónlist úti, en svo eftir Covid hefur ekki mikið gerst og ég tók mér eiginlega bara pásu. Fannst ég þyrfti að rífa mig í gang aftur og gera eitthvað gaman og þá er Söngvakeppnin pottþétt.“
Hver er þín fyrsta Eurovision-minning?
„Fyrsta held ég sé þegar ég var að horfa á úrslitin í Melodifestivalen 2000 og Roger Pontare vann. Hann er Sami og ég vissi ekkert hvað það var og fannst hann vera í skrýtnum fötum. Síðan unnu Danmörk það ár og ég man að ég var alltaf eitthvað að syngja lagið með Olsen-bræðrunum.“
Hvert er þitt uppáhalds Eurovision-lag?
„Annaðhvort Euphoria með Loreen eða Heroes með Måns Zelmerlöw. Joy Deb sem gerði Heroes er líka búinn að gera lagið mitt sem mér finnst mjög töff.“
Hvert er flottasta Eurovision-dress allra tíma?
„Ekki Roger Pontare allavega, en kannski Mahmood sen keppti fyrir Ítalíu í fyrra.“
Hvað er það við þitt lag sem sker sig úr frá öðrum lögum Söngvakeppninnar í ár?
„Það eru öll lög mjög mismunandi í þessu í ár en mitt lag er búið til fyrir að vera flutt í sjónvarpinu með sænsku formúlunni sem hefur náð árangri í þessari keppni. Vona líka að margir tengi við lagið og um það sem ég er að syngja.“
Hvernig hélst þú upp á Eurovision á síðasta ári?
„Þá var ég í afmælispartí hjá vini mínum í Svíþjóð. Þeir vissu ekki að Eurovision væri í gangi en ég breytti þessu í Eurovision-partí.“
Hvaða Eurovision-lag værir þú líklegur til að syngja hástöfum í karaókí?
„Space man með Sam Ryder eða Heroes með Måns Zelmerlöw.“