Systkinin Valgeir Skorri, Hrafnkell Hugi og Katla Vigdís Vernharðsbörn skipa hljómsveitina Celebs sem stígur á svið í Söngvakeppni sjónvarpsins í kvöld. Systkinin eru frá Suðureyri á Súgandafirði og flytja lagið Dómsdagsdans.
Valgeir, Hrafnkell og Katla eru mikil partídýr og hafa lagt mikið upp úr því að spila partímúsík fyrir alþýðuna. Því fannst þeim kjörið tækifæri að reyna að komast á stærsta vettvang landsins, Söngvakeppnina, til að skemmta landsmönnum og gera eitthvað stórt.
Hvað er Eurovision í ykkar huga?
„Over the top! Sem er mjög gott í okkar bókum. Við höldum mikið upp á að gera gott „sjóv“ og Eurovision er hinn fullkomni vettvangur til að gera eitthvað stórt, eitthvað meira en bara lagið, vera með atriði.“
Hefur ykkur alltaf langað til að keppa í Söngvakeppninni?
„Við höldum að flestallt íslenskt tónlistarfólk hafi einhvern tímann gælt við þá hugmynd að taka þátt í henni, sama hversu alvarlega það pældi í því. Við vorum heppin með að tímasetningin hentaði okkur virkilega vel í ár og okkur fannst við eiga erindi í keppnina með atriðið sem við erum búin að setja saman.“
Af hverju ákváðuð þið að gera það í ár?
„Eins og við vorum að segja þá höfum við verið að vinna að því að gera skemmtilegt sjóv á tónleikum hjá okkur og þetta virtist bara vera rökrétt framhald af því. Hér erum við komin með tækifæri til þess að setja upp og pródúsera atriði eftir eigin hentisemi með ógrynni af hæfileikaríku fólki og stærsta platform sem býðst hér á Íslandi. Ef eitthvað er ætti spurningin að vera af hverju ekki?“
Hver er ykkar fyrsta Eurovision-minning?
„Þær eru misjafnar, Keli man eftir að hafa haldið virkilega mikið með Moldavíu eitt árið, Valgeir rámar í Selmu '99 og Katla á sterka minningu um fjaðrirnar hennar Silvíu Nætur.“
Hvert er ykkar uppáhalds Eurovision-lag?
„Sama hér að þá eru misjöfn svör, WigWam, Euphoria með Loreen og svo þykir Valgeiri stærsti skandall Íslendinga í þessari keppni að hafa ekki sent út Eika Hauks og Model með Lífið er lag árið 1987.“
Hvert er flottasta Eurovision-dress allra tíma?
„Jedward/WigWam, þetta er hnífjafnt!“
Hvað er það við ykkar lag sem sker sig frá öðrum lögum Söngvakeppninnar í ár?
„Við erum ekkert að reyna að taka okkur of alvarlega, tökum samt vinnuna alvarlega. Okkur langar bara helst að gera eitthvað sem gleður fólk og það hefur gaman af. Það er búið að vera hundleiðinlegt síðustu ár og kominn tími til að hafa smá gaman!“
Hvernig hélduð þið upp á Eurovision á síðasta ári?
„Við horfðum á keppnina hvert í sínu lagi, vorum ekkert að hóa okkur saman landshlutanna á milli. Maður horfir alltaf á þetta þó svo að við værum heldur ekki komin á þann stað að við ætluðum að taka þátt í ár þannig að við vorum ekki að stúdera neitt með það í huga. Alltaf gaman að fylgjast með, miklu skemmtilegra en að vera fúll á móti, við mælum með!“
Hvaða Eurovisionlag væruð þið líkleg til að syngja hástöfum í karíókí?
„Euphoria og það hefur mikið verið tekið undanfarin ár. Bæði Katla og Ása Dýradóttir (sem verður með okkur á bassa á laugardaginn) hafa mikið stundað það á böllum að krefjast þess að bandið sem er að spila skelli í eitt stykki Euphoria! Sem er að sjálfsögðu eina vitið. Síðan er einnig hent í Nínu á tyllidögum.“