Söngvakeppni Ríkisútvarpsins hefst í kvöld og með því hefst leitin að næsta framlagi Íslands í Eurovision sem fer fram að þessu sinni í Liverpool í Bretlandi í maí. Keppnin hefst klukkan 19.45.
Í ár keppa tíu lög um heiðurinn að vera framlag Íslands í Eurovision en keppnin fer fram á þremur næstu laugardagskvöldum. Í kvöld keppa fyrri fimm lögin en tvö komast áfram í úrslitakeppnina. Leikurinn endurtekur sig síðan næsta laugardagskvöld þar sem seinni fimm lögin keppa um velvild áhorfenda og dómnefndar.
Framkvæmdastjórn keppninnar hefur svo heimild til að veita einu lagi í viðbót farmiðann í úrslitakeppnina. Það verða því fjögur eða fimm lög sem keppa á úrslitakvöldinu 4. mars.
Búið er að ákveða framkomuröð keppenda í kvöld en þau munu koma fram í eftirfarandi röð: Þora með Benedikt, Lifandi inni í mér með Diljá, Dómsdags dans með Celebs, Stundum snýst heimurinn gegn þér með Braga og síðast Glötuð ást með Móu.
Söngvarinn og stuðboltinn Friðrik Dór mun síðan koma fram í kvöld sem skemmtiatriði kvöldsins. Hér fyrir neðan er hægt að kynna sér keppendur kvöldsins.