Hvað, leikur þessi maður alltaf svona ógeðfelldar persónur? hugsaði ég með mér þegar bandaríski leikarinn Jake Lacy birtist á skjánum hjá mér á dögunum í gervi barnaníðingsins Roberts Berchtolds í myndaflokknum Fjölskylduvininum eða A Friend of the Family. Slepjan hreinlega lekur af honum.
Síðast þegar ég sá Lacy, rétt fyrir jólin, lék hann auðugan en óþroskaðan mömmudreng, Shane að nafni, í öðrum myndaflokki, Hvíta lótusnum eða The White Lotus. Alveg ofboðslega þreytandi týpu sem hringir í mömmu sína út af öllu og engu. Það kastaði svo tólfunum þegar mamman hreinlega birtist í miðri brúðkaupsferð sonar síns á Havaí og vart mátti milli sjá hvort þeirra var leiðinlegra, sonurinn eða móðirin. Aumingja brúðurin átti alla mína samúð. Að ekki sé talað um hótelstjórann sem Shane áreitir nánast út yfir gröf og dauða. Enda staðráðinn í að fá það sem hann borgaði fyrir. Eða nánar tiltekið sem mamma hans borgaði fyrir.
Ég verð að viðurkenna að áður en þessi ósköp dundu á mér þá hafði ég ekki heyrt þetta nafn, Jake Lacy, og mundi ekki eftir að hafa séð kappann áður, hvorki á skjánum né hvíta tjaldinu. Við nánari skoðun fann ég þó mynd með honum sem mig minnir að ég hafi séð á sínum tíma, Love the Coopers. Það er svona þreytandi jólamynd með John Goodman, Diane Keaton og fleirum og alltof miklu talmáli og almennu tuði. Í minningunni var Lacy þó ekkert svo ofboðslega ógeðfelldur þar. Ég held ég hafi mig samt ekki í að horfa á hana aftur til að fá þá minningu staðfesta.
Þess í stað lagðist ég í lestur og heimildagrúsk og þá kom eftirfarandi upp úr dúrnum: „Áður en Jake Lacy varð Shane, viðbjóðslegi brúðguminn í satírunni vinsælu Hvíta lótusnum, var þessi 37 ára gamli leikari frægur fyrir að leika ljúfmenni. Ekki bara góða gæja, heldur svo yfirgengilega viðkunnanlega menn til orðs og æðis að þeir geta ekki verið annað en skáldskapur.“
Þetta eru upphafsorð viðtals við Lacy í breska blaðinu The Independent fyrr í vetur. Mál sitt styður blaðamaðurinn með því að vísa í myndaflokka sem annars vegar heita Girls (2015-16) og hins vegar High Fidelity (2020). Í þeim fyrri var Lacy slíkt öndvegiseintak af manni að hann bauðst til að skutla kærustunni sinni heim eftir að hún sagði honum upp, hundruðum mílna frá heimili sínu. Geri aðrir betur! Í síðarnefnda myndaflokknum, sem byggist á bók Nicks Hornbys, lék Lacy víst örlagarokkara, týpuna sem konur slá sér upp með þegar þær eru að jafna sig eftir ástarsorg. Sem út af fyrir sig eru grimm örlög.
Í viðtalinu viðurkennir Lacy að afstaða margra til sín hafi breyst eftir að hann lék í Hvíta lótusnum. „Hey, gaur, við hötuðum þig,“ mun bláókunnugur maður hafa sagt við hann á förnum vegi skömmu eftir að Lótusinn var sýndur vestra. „Þú varst svo andstyggilegur … en það er hól.“
Þar hittir sá bláókunnugi einmitt naglann á höfuðið. Lacy leikur ljómandi vel bæði í Lótusnum og Fjölskylduvininum. Það er list að smeygja sér með þessum hætti undir skinn áhorfandans og fá hann til að klæja af óþægindum. Meðan Shane er aðallega aumkunarverður þá er Robert Berchtold (agalegur tungubrjótur það nafn og ekki síður fingurbrjótur á lyklaborðinu) rándýr af verstu gerð; maður sem situr um barnungar stúlkur með blíðmælgi og barnslegan sjarma að vopni. Virkar velviljaður og meinlaus við fyrstu kynni en annað kemur svo sannarlega á daginn. Og þetta er byggt á sannri sögu. Jan Broberg var í raun og sann fórnarlamb Berchtolds.
Nánar er fjallað um Jake Lacy í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.