Leikarinn Tom Sizemore er hætt kominn eftir að hafa fengið heilablóðfall í nótt. Fréttastofa AP greinir frá.
Talið er að Sizemore, sem er 61 árs gamall, hafi fengið heilablóðfall um klukkan tvö í nótt að staðartíma í Bandaríkjunum.
Bandaríski slúðurmiðillinn TMZ hefur eftir Charles Lago, umboðsmanni Sizemore, að leikarinn hafi verið að „slappa af“ á heimili sínu í Los Angeles í gærkvöldi þangað til hann fannst meðvitundarlaus.
Var honum því komið strax á spítala þar sem ástand hans var metið alvarlegt. Segir Lago að ekki sé enn ráðið hvort leikarinn nái fullum bata.
Tom Sizemore er einna helst þekktur fyrir hlutverk í kvikmyndum á borð við Saving Private Ryan, Black Hawk Down, Natural Born Killers og Heat. Sizemore hefur lengi átt við fíknivanda að stríða og oft komist í kast við lögin.
Hefur hann í gegnum tíðina meðal annars verið handtekinn fyrir ölvunarakstur, heimilisofbeldi og vörslu fíkniefna.