Íslenski leikarinn Þorvaldur Davíð Kristjánsson tók við viðurkenningu á Berlinale, alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Berlín í gær. Þorvaldur Davíð er í hópi upprennandi leikara (e. Shooting stars) í Evrópu.
Á hverju ári velja samtökin European Film Promotion (EFP) tíu unga og efnilega leikara og leikkonur, úr hópi aðildarlanda samtakana, sem hafa vakið sérstaka athygli í heimalandi sínu og á alþjóðavettvangi.
Berlinale fer fram dagana 16. til 26. febrúar í Berlín.
Átta konur og tveir karlar voru valdir í hópinn í ár, af 27 tilnefndum leikurum. Það er fjölþjóðleg dómnefnd sem velur hópinn, skipuð Jan Komasa frá Póllandi, Rebeccu van Unen frá Hollandi, Mariu Ekerhovd frá Noregi, Leo Barraclough frá Englandi og Veronicu Echegui, sem áður var í hópi Shooting Stars.
„Um leið og Þorvaldur Davíð birtist í kvikmynd Ásu Helgu Hjörleifsdóttur, Svari við bréfi Helgu, stafar frá honum mikil útgeislun. Hann fangar fullkomlega hlutverk ástsjúks bónda sem verður heltekinn af ástríðu fyrir upprennandi skáldkonu,“ segir í umsögn dómnefndar EFP. „Í honum sameinast hraustlegt yfirbragð og viðkvæmni, sem laðar áhorfendur að honum og fær þá til að taka afstöðu með honum.“