Tónlistarkonan Nanna Bryndís Hilmarsdóttir tilkynnir um væntanlega sóló plötu sem kemur út 5.maí á vegum Republic Records. Platan er pródúseruð af Nönnu ásamt Aaron Dessner og Josh Kaufman. How To Start A Garden inniheldur 11 lög, þar á meðal lagið Crybaby sem kom út í dag.
Crybaby var samið í húsi Nönnu í sveitinni, líkt og fyrri smáskífan Godzilla. Lagið ferðaðist síðan yfir hafið þar sem það var tekið upp í hinu þekkta Long Pond Studio hjá Aaron Dessner í New York og síðan aftur til Íslands þar sem Nanna lagði lokahönd á lagið.
„Ég samdi lagið upp í sveit. Ég fór þangað til þess að vera ein og ég man að ég lá á gólfinu, spilandi á gítarinn í einhverjum mínus yfir allskonar. Mér fannst það pínu dramatískt og fyndið svo ég kallaði lagið “Crybaby” til að hlæja smá af þessu öllu saman,“ segir Nanna. „Þetta setti tóninn fyrir mikið af plötunni, þetta með að reyna að taka sjálfa sig ekki of alvarlega þótt þér líði þannig”
Þóra Hilmarsdóttir leikstýrir myndbandinu við lagið en þar má sjá Nönnu dansa eina undir diskókúlu í fámennri samkomu þar sem hún virðist vera í sínum eigin heimi á meðan hún reynir að ná athygli og tengjast gestunum.
Auk þess að tilkynna um sóló plötuna sína, þá tilkynnir Nanna einnig um tónleikaferðalag í Bandaríkjunum auk tveggja tónleika á Iceland Airwaves hátíðinni í nóvember. Ástralska tónlistarkonan Indigo Sparke mun hita upp fyrir hana úti.