Breska leikkonan Hannah Waddingham, enska söngkonan Alesha Dixon og úkraínska söngkonan Julia Sanina verða kynnar í Eurovision sem fram fer í Liverpool í maí.
Verða þær kynnar á báðum undankvöldum keppninnar, 9. og 11. maí, og mun Graham Norton veita þeim liðstyrk á úrslitakvöldinu 13. maí.
BBC greindi frá þessu í dag og segir að búist sé við því að 160 milljónir manns um heim allan muni fylgjast með keppninni.
Bretland heldur keppnina ásamt sigurvegurum síðasta árs, Úkraínu, því ekki er hægt að halda keppnina þar í landi vegna innrásar Rússa.
Waddingham segir mikil forréttindi að fá að taka þátt í keppninni því þetta væri mesta tónlistarveisla heims. Hún er hvað þekktust fyrir að fara með hlutverk í Ted Lasso, Game of Thrones og Sex Education.