Volaða land, margverðlaun kvikmynd Hlyns Pálmasonar, verður frumsýnd í íslenskum kvikmyndahúsum hinn 10. mars næstkomandi. Af því tilefni er komin glæný íslensk stikla fyrir myndina.
Volaða Land er stórbrotin saga af baráttu manns við náttúruna, trúna og sitt dýrslega eðli. Undir lok 19. aldar ferðast ungur danskur prestur til Íslands í þeim tilgangi að reisa kirkju og ljósmynda íbúa eyjunnar.
Sérvitur leiðsögumaður leiðir prestinn í gegnum harðneskjulegt landið á hestbaki ásamt hópi heimamanna. Eftir því sem líður á ferðalagið missir presturinn tökin á veruleikanum, ætlunarverkinu og eigin siðgæði.
Hér er um að ræða íslensk-danska kvikmynd á heimsmælikvarða. Með helstu íslensku hlutverk fara þau Ingvar Sigurðsson, Hilmar Guðjónsson, og Ída Mekkín Hlynsdóttir. Dönsku hlutverkin eru í höndum þeirra Elliott Crosset Hove, Vic Carmen Sonne, og Jacob Hauberg Lohmann.
Hlynur Pálmason leikstýrði og skrifaði handritið að myndinni. Anton Máni Svansson framleiddi fyrir Join Motion Pictures, í samstarfi við Katrin Pors, Mikkel Jersin og Eva Jakobsen fyrir Snowglobe.
Volaða Land var heimsfrumsýnd í Un Certain Regard flokki kvikmyndahátíðarinnar í Cannes á síðasta ári við standandi lófaklapp og mikið lof gagnrýnenda. Í framhaldinu hefur hún ferðast um heiminn, hlotið tilnefningar til bæði Norrænu- og Evrópsku Kvikmyndaverðlaunanna, og unnið til fjölda verðlauna.
Myndin var sýnd einu sinni á Íslandi á síðasta ári því hún var tilnefnd til Norrænu kvikmyndaverðlaunanna. Gagnrýnandi Morgunblaðsins gaf henni þá fimm stjörnur.