Svíþjóð er nú spáð sigri í Eurovision-söngvakeppninni sem fram fer í Liverpool í maí næstkomandi. Svíþjóð fór á toppinn í veðbönkum í gær eftir að brot úr lagi söngkonunnar Loreen í Melodifestivalen fór í loftið á vef sænska ríkissjónvarpsins SVT.
Úkraína hefur setið efst í veðbönkum frá því að þeir opnuðu en Úkraína vann keppnina á síðasta ári. Í raun hefur Úkraína nú setið í efsta sæti veðbankanna í ár, en landið skaust strax á toppinn við innrás Rússa fyrir einu ári síðan.
Vefurinn Wiwibloggs, Eurovision-aðdáendasíða, fjallaði um nýjustu vendingar í veðbönkum í dag.
Loreen tekur þátt í fjórða undankvöldi Melodifestivalen nú um helgina. Loreen er goðsögn í Eurovision-heiminum eftir að hún vann keppnina með laginu Euphoria árið 2012. Nýtt lag Loreen ber titilinn Tattoo.
Búist er við því að Loreen komist áfram upp úr riðli sínum í Melodifestivalen annað kvöld. Þá er eftir undanúrslitakvöld sem haldið verður hinn 4. mars og 11. mars munu Svíar svo loks velja framlag sitt til keppninnar í ár.
Úkraínumenn eru búnir að velja sitt framlag til keppninnar í ár, lagið Heart of Steel sem Tvorchi flytur.
Ísland er að svo stöddu í 32. sæti í veðbönkum en seinna undankvöld Söngvakeppni sjónvarpsins fer fram annað kvöld. Úrslitakvöld keppninnar er svo 4. mars næstkomandi.