Hljómsveitin Langi Seli og skuggarnir og söngkonan Sigríður Ósk Hrafnkelsdóttir, betur þekkt sem Sigga Ózk, tryggðu sér sæti á úrslitakvöldi Söngvakeppni sjónvarpsins í kvöld. Síðari undanúrslit Söngvakeppninnar fóru fram í kvöld.
Diljá Pétursdóttir og Bragi Bergsson komust áfram í fyrri undankeppninni sem fór fram síðasta laugardag.
Úrslitakvöldið fer fram næsta laugardag og verður þá ljóst hver verður fulltrúi Íslands í Eurovision í maí.
Hljómsveitin Celebs, sem söng lagið Dómsdags dans, komst áfram sem svokallað „Wild card“ en á síðustu árum hefur framkvæmdastjórn Söngvakeppninnar hleypt einu lagi áfram sem ekki komst upp úr undanúrslitum. Celebs tóku þátt í fyrri undanúrslitum.
Úr hvorum undanúrslitum komust tvö lög áfram. Rétt áður en tilkynnt var hverjir kæmust upp úr fyrri undanúrslitum tók Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, einn kynna keppninnar, fram að aðeins tveimur atkvæðum hefði munað á þeim atriðum sem lentu í öðru og þriðja sæti. Í kvöld var tilkynnt að Celebs hafði hafnað í þriðja sæti.