Anthony Ciccone, eldri bróðir söngkonunnar Madonnu, er látinn 66 ára að aldri. Þetta tilkynnti fjölskyldan í kvöld, að því er fréttastofa BBC greinir frá.
Ciccone er einn sjö systkina Madonnu og er sagður hafa fallið frá á föstudagskvöld. Hann glímdi við áfengisfíkn og er sagður hafa verið heimilislaus árum saman og haldið til undir brú.
Mágur Ciccone, Joe Henry, greindi fyrstur frá andlátinu á Instagram og lét svarthvíta mynd af Ciccone fylgja með.
„Ég hef þekkt hann síðan ég var fimmtán ára. Við kynntumst þegar við vorum í blóma lífsins í Michigan, svo mörg ár eru nú liðin eins og dögg fyrir sólu,“ skrifar hann undir myndina, sem hann birti á miðlinum í dag.
Madonna hefur lækað myndina en ekki tjáð sig um andlát bróður síns opinberlega enn sem komið er.