Hann flaug ekki alla leið frá Havaí til að mæta þessu tómlæti frá ókunnugu fólki af lægrimillistétt. „Tók einhver eftir því en ég var ekki kynntur fyrir öðrum fjölskyldumeðlimum? Er það vegna þess að ég er öðruvísi á litinn. Er ég ekki nógu góður?“
Mary Campbell og synir hennar, Jodie og Danny Dallas, sitja opinmynnt á sófanum heima hjá sér. Það eru komnir gestir. Fyrst ber að telja Chuck, son Burts, eiginmanns Mary og stjúpa bræðranna, sem er mjúkmáll maður og geðþekkur. En með honum er Bob, önugur náungi og augljóslega rætinn fram í fingurgóma af þessum fyrstu kynnum að dæma. Hann smýgur strax undir skinnið á mæðginunum sem langar einna helst að heilsa honum að sjómannasið. Það flækir þó málið að Bob er ekki af holdi og blóði, heldur trébrúða, eins konar hliðarsjálf búktalarans Chucks og andhverfa í einu og öllu. Þeir félagar eru óaðskiljanlegir. Skyldi engan undra að aumingja Burt, taugaveiklaðasti maður sjónvarpssögunnar, skuli ráfa í reiðuleysi um stofuna. Hann langar ekki bara í sjúss, hann þarf lífsnauðsynlega á honum að halda.
Já, við erum stödd í miðju Löðri, einhverjum meinfyndnasta þætti sem sýndur hefur verið í íslensku sjónvarpi. Það þarf auðvitað ekkert tilefni til að dusta rykið af Löðri en eins og fram kom hér í blaðinu fyrir viku eru um þessar mundir 40 ár frá því að lokaþáttur sápunnar ódauðlegu fór í loftið í Ríkissjónvarpinu. Dálksentimetrum hefur verið ráðstafað af minna tilefni í útgáfusögunni. Skrifa mætti heila svona grein um flesta ef ekki alla karakterana í Löðri, Jessicu, Majórinn, Chester, Benson og Corinne, svo einhver séu nefnd, en við skulum halda okkur við Bob. Hann var óborganleg týpa.
„Jæja,“ segir Jodie við Burt, stjúpa sinn, eftir að hafa hitt Chuck og Bob, „og þér líður óþægilega innan um samkynhneigða!“
Jodie var sem kunnugt er ein fyrsta, ef ekki allra fyrsta, opinberlega samkynhneigða persónan í þáttum af þessu tagi. Staðreynd sem kom Burt reglulega úr jafnvægi enda kappinn af gamla skólanum. „Og þú heldur að ég eigi við vandamál að stríða,“ segir Jodie einnig í þessari sömu senu og horfir gáttaður á Burt. „Tja, þeir komust alla vega í herinn,“ svarar Burt að bragði.
Chuck biður menn að sýna Bob þolinmæði. Hann þoli illa ferðalög og sé fyrir vikið ekki í sínu besta formi. „Hvað gerðist í fluginu?“ spyr hinn kaldhæðni Jodie. „Kastaði hann upp sagi?“
Eftir hæfilegan viðbótarskammt af illmælgi og almennum svívirðingum fara Chuck og Bob upp til að skola af sér ferðarykið. Burt bregst við starandi augnaráði konu sinnar og stjúpsona með því að bera blak af brúðunni. „Þetta var löng ferð og Bob verður ábyggilega í betra skapi þegar þeir eru búnir að hressa sig við.“ Mary tekur blíðlega um handlegginn á honum og segir: „Burt, hann er brúða!“
Þá berst kall af efri hæðinni. „Ég heyrði þetta!“
Nánar er fjallað um Chuck og Bob í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.