Fjórir voru hnepptir í varðhald í gærkvöldi eftir að hafa ruðst inn á svið með skilti, þegar söngkonan Loreen flutti lagið sitt, Tattoo, á fjórða undanúrslitakvöldi Melodifestivalen, undankeppni Svíþjóðar fyrir Eurovision.
Slökkt var á tónlistinni í miðju lagi og skipt yfir á kynninn, sem lýsti því yfir að óvæntur gestur væri kominn upp á svið.
Vegna þessa atviks var Loreen leyft að flytja lagið sitt aftur, án truflunar. Hlaut hún svo flest greiddra atkvæða í kosningunni og komst þar með áfram í úrslitin ásamt hljómsveitinni Smash.
Samkvæmt heimildum SVT eru mennirnir taldir á vegum hópsins Återställ Våtmarker. Sá hópur samanstendur af umhverfisaðgerðarsinnum og berst fyrir endurheimt sænks votlendis. Hefur hópurinn beitt þessari aðferð áður, til að mynda í skemmtiþætti og við stöðvun umferðar.