Maður frá Kaliforníu, að nafni Jeff Reitz, hefur nú sett heimsmet í fjölda heimsókna í Disney-land. Samanlagt hefur hann eytt 2,995 dögum í skemmtigarði Disney í Kaliforníu.
Reitz er fimmtugur, og hefur alla tíð verið mjög heillaður af Disney. Hann hefur heimsótt Disney-land í Anaheim í Kaliforníu, daglega í átta ár, þrjá mánuði og þrettán daga.
Að því er fram kemur í frétt Guardian, var hann ekki að þessum heimsóknum í þeim tilgangi að slá heimsmet, og kom það honum raunar verulega á óvart að fá símtal frá heimsmetanefnd Guinnes, þess efnis að hann hefði slegið heimsmet í Disney-heimsóknum.
Árið 2012 missti Reitz vinnuna og tók í framhaldinu upp á því að heimsækja Disney-land daglega, enda var hann handhafi árs-passa sem hann hafði fengið að gjöf. Þessar heimsóknir höfðu þann tilgang að brjóta upp daginn og veita honum tilefni til að hreyfa sig, milli þess sem hann leitaði sér að nýju starfi.
Með Disney-lands heimsóknunum léttist í honum lundin, og áður en hann vissi af hafði hann vanið komur sínar þangað daglega í tvo mánuði.
Þegar honum tókst svo að landa nýju starfi, þurfti hann að skipuleggja sig vel til þess að ná að heimsækja skemmtigarðinn áfram, en þá hafði hann sett sér það markmið að mæta þangað 3 þúsund daga í röð. Hann þurfti að fara þangað snemma á morgnana eða seint á kvöldin, eða þá þegar hann átti lausa stund frá vinnu.
Þegar heimsfaraldurinn skall á var skemmtigarðinum lokað og því náði Reitz ekki markmiði sínu, en nú er engu að síður ljóst að hann er og verður handhafi heimsmets í daglegum heimsóknum í Disney-land, þar sem reglum var í kjölfarið breytt á þann veg að gestir verði að eiga bókaðan tíma til þess að koma í garðinn.