Þið eigið að finna Elvis!

Baldvin Nielsen við bleika kadiljákinn hans Elvis í Graceland.
Baldvin Nielsen við bleika kadiljákinn hans Elvis í Graceland.

Baldvin Nielsen er eldheitur aðdáandi Elvis Presleys og kóngurinn hefur komið víða við sögu í hans lífi. Snemma á níunda áratugnum átti Baldvin hraðbát sem að sjálfsögðu hét Elvis. Einu sinni á leið frá Keflavík til Patreksfjarðar missti mótorinn afl og bátinn rak um tíma.

Baldvin og félagar heyrðu í Reykjavíkurradíói en gátu ekki svarað. Fyrir vikið var gerð út leit. Meðal annars var haft samband við þyrlu varnarliðsins og flugstjórinn rak upp stór augu þegar honum var tjáð hvert verkefni dagsins væri: Að finna Elvis!

Það var þó á endanum TF Rán, þyrla Landhelgisgæslunnar, sem fann bátinn eftir að Baldvin sendi út neyðarblys. Þyrlan var þá að verða eldsneytislaus og við það að snúa til baka og þyrla varnarliðsins að taka við leitinni.  

Heimsótti Graceland

Baldvin lét gamlan draum rætast á dögunum og heimsótti Graceland, heimili Elvis í Memphis, ásamt Nínu Maríu dóttur sinni. „Það er ótrúleg upplifun að koma í Graceland enda allt eins og Elvis skildi við það. Íburðurinn er ekkert ýktur en þetta hefur ábyggilega verið afskaplega flott á sínum tíma,“ segir Baldvin en Graceland var byggt árið 1939. Elvis eignaðist setrið árið 1957.

Baldvin og Nína María, dóttir hans, í sporum Elvis í …
Baldvin og Nína María, dóttir hans, í sporum Elvis í hinu fræga Sun Studio í Memphis. ​

„Við gengum þarna í gegn með leiðsögumanni sem fræddi okkur um það sem fyrir augu bar. Mér skilst að Graceland sé næstfrægasta íbúðarhús Bandaríkjanna á eftir Hvíta húsinu og eitt af fimm mest heimsóttu. Þegar maður kemur í Graceland áttar maður sig ennþá betur á því hversu miklu Elvis kom í verk á til þess að gera stuttri ævi. Það var magnað að sjá þetta allt.“

Baldvin ber lof á Priscillu Presley, fyrrverandi eiginkonu Elvis, fyrir að hafa haldið vel utan um minningu hans – ekki síst á Graceland.

Feðginin heimsóttu einnig Elvis-safnið í grennd við Graceland og svo hið víðfræga Sun Studio, þar sem Elvis tók upp sín fyrstu lög snemma á sjötta áratugnum.

„Það var ekki amalegt að standa í hans sporum þar,“ segir Baldvin.

Verð að fara aftur

Hvernig líður þér eftir að hafa loksins komið til Memphis?

„Mér finnst eins og ég verði að fara sem fyrst aftur. Ég þarf að skoða mig betur um þarna, maður gerir það aldrei almennilega í fyrstu heimsókn ef maður er alvöruaðdáandi.“

Baldvin við billjardborð kóngsins.
Baldvin við billjardborð kóngsins.

Baldvin var átta eða níu ára gutti í Keflavík þegar hann komst fyrst í kynni við tónlist Elvis Presleys.

„Það var keyptur plötuspilari á heimilið og fyrsta platan sem fór á hann var með Hönnu Valdísi. Elvis kom fljótlega þar á eftir. Einar Júlíusson söngvari, sem er nýlátinn, vann þá í Hljómvali og seldi mér fyrstu 13 Elvisplöturnar. Flaming Star var sú fyrsta sem ég keypti og ég man hvað mér fannst músíkin töff.“

Nánar er rætt við Baldvin í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að bregðast við og verja þig og þína gegn utanaðkomandi þrýstingi sem er ósanngjarn og í raun rangur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Anna Sundbeck Klav
5
Patricia Gibney
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að bregðast við og verja þig og þína gegn utanaðkomandi þrýstingi sem er ósanngjarn og í raun rangur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Anna Sundbeck Klav
5
Patricia Gibney