Leikkonan Jamie Lee Curtis grínaðist með að vera afurð frændhygli í Hollywood á Screen Actors Guild-verðlaunahátíðinni í Los Angeles í Bandaríkjunum í gærkvöldi.
Curtis er vissulega barn tveggja stórleikara, Tony Curtis og Janet Leigh, eins og hún kom inn á í ræðu sinni þegar hún tók við verðlaunum fyrir leik sinn í aukahlutverki í myndinni Everything Everywhere All at Once.
„Ég fékk SAG-stéttarfélagskortið mitt þegar ég var 19 ára og skrifaði undir sjö áa samning við Universal Studios og lék í ABC-þáttunum Operartion Petticoat, sem byggði á kvikmynd sem pabbi minn, Tony Curtis, kúltúrbarn, lék í,“ sagði Curtis og uppskar mikinn hlátur.
Leikkonan sagðist hafa verið rekin úr þáttunum ári síðar og hélt að ferill hennar væri búinn. Hú fékk hins vegar hlutverk í hryllingsmyndinni Halloween.
„Góðu fréttirnar eru þær að ef ég hefði ekki verið rekin úr Operation Petticoat, þá hefði ég aldrei haft tækifæri til að fara í áheyrnarprufur fyrir agnarsmáa hryllingsmynd með engu fjármagni, Halloween,“ sagði Curtis og bætti svo við: „Orðræðan um kúltúrbörn í dag er bara hönnuð til að smætta, niðurlægja og særa. Ég vil taka fram að ég er búin að lifa lífinu í 44 ár með þeim forréttindum sem spegluð frægð hefur fært mér. Ég ætla ekki að þykjast að það séu engir sem reyna að segja mér að ég sé einskisvirði ein og sjálf,“ sagði Curtis.
Umræðan um kúltúrbörn náði hámarki í desember síðastliðnum þegar tímaritið Vulture fjallaði ítarlega um frændhygli og fjölskyldubönd í Hollywood. Vakti umfjöllunin einna helst athygli þegar hin svokallaða TikTok-kynslóð uppgötvaði að hetjurnar þeirra ættu margar hverjar fræga foreldra.